151. löggjafarþing — 23. fundur,  19. nóv. 2020.

merkingar og upplýsingaskylda varðandi vörur sem tengjast orkunotkun.

12. mál
[14:05]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég flyt hér nefndarálit meiri hluta hv. atvinnuveganefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi vörur sem tengjast orkunotkun, með síðari breytingum. Atvinnuveganefnd hefur fjallað um málið og fengið til sín á fund gesti. Auk þess barst nefndinni umsögn frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og sameiginleg umsögn frá Samtökum iðnaðarins og Samtökum verslunar og þjónustu.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun heimilistækja. Lögin eru rammalöggjöf, upphaflega sett til innleiðingar á tilskipun 92/75 frá Evrópusambandinu, og síðar breytt til að innleiða breytingar á henni með tilskipun frá 2010. Á grundvelli hennar hefur fjöldi reglugerða um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun einstakra vörutegunda verið settur. Með frumvarpi þessu er hins vegar innleidd ný reglugerð sem kemur í stað tilskipunar frá 2010. Markmið reglugerðarinnar er að upplýsa neytendur um orkunotkun vöru og að samræmdar upplýsingar liggi fyrir sem geri neytendum kleift að taka upplýsta ákvörðun um kaup á vörum. Samþykkt frumvarpsins kallar á aukna upplýsingagjöf seljenda og birgðasala sem framleiða, selja eða flytja inn vörur sem tengjast orkunotkun. Um markmið og efni frumvarpsins vísast að öðru leyti til greinargerðar með því.

Þær umsagnir sem nefndinni bárust vegna málsins voru jákvæðar. Með samþykkt frumvarpsins verður markaðseftirlit með vörum á markaði einfaldara með aukinni yfirsýn yfir vörur sem settar eru á markað í því skyni að ná fram auknum orkusparnaði og þar með draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum. Þá er bent á að sú reglugerð sem lagt er til að innleiða sé hluti af aðgerðum Evrópusambandsins til að ná markmiðum þess um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Staða Íslands í orkumálum sé hins vegar gjörólík stöðu flestra ríkja sem eru aðilar að EES-samningnum þar sem hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa hér er mun hærra en almennt gengur og gerist.

Fyrir nefndinni kom fram að skylda til skráningar upplýsinga um orkunotkun í miðlægan vörugagnagrunn þegar framleitt er eða flutt inn á innri markað Evrópska efnahagssvæðisins sem eigi að auðvelda neytendum samanburð sé ekki talin íþyngjandi fyrir íslensk fyrirtæki sem eru að jafnaði seljendur en ekki birgðasalar. Þá eigi nýr sameiginlegur kvarði, A–G, fyrir orkunotkun tiltekinna flokka rafmagnstækja og ljósgjafa að vera til bóta fyrir neytendur þar sem eldri kvarði, sem er A++ eða B og C og þeir flokkar, hafi ekki þótt nógu skýr. Þá var bent á að raforkuþörf Íslendinga er nær alveg uppfyllt með raforku frá endurnýjanlegum orkugjöfum, ólíkt því sem gerist hjá ríkjum Evrópusambandsins. Jafnframt kom fram fyrir nefndinni að gert er ráð fyrir að merkingar verði myndrænar en að hægt verði að sækja ítarlegri leiðbeiningar í vörugagnagrunninn. Nefndin telur mikilvægt að þær leiðbeiningar verði aðgengilegar á íslensku.

Nefndin telur jákvætt að fyrir liggi samræmdar og aðgengilegar upplýsingar um orkunotkun og aðra notkunareiginleika sem geri neytendum kleift að taka upplýsta ákvörðun um kaup líkt og stefnt er að með þessu frumvarpi.

Að þessu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með framlögðum breytingum.

Undir þetta álit skrifa hv. þingmenn Lilja Rafney Magnúsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Haraldur Benediktsson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Ólafur Ísleifsson og Sigurður Páll Jónsson.

Ég hef lokið máli mínu, forseti.