151. löggjafarþing — 23. fundur,  19. nóv. 2020.

listamannalaun.

310. mál
[14:36]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir framsöguna. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir því að veita 225 millj. kr. tímabundið til hækkunar framlaga í launasjóð listamanna eins og kom hér fram, í ljósi veirufaraldursins. Samanlögðum starfslaunum á næsta ári verður því fjölgað úr 1.600 mánaðarlaunum í 2.150. Það er alveg ljóst og við þekkjum það að allar listgreinar hafa orðið fyrir tjóni vegna faraldursins og verst hefur ástandið bitnað á tónlistarflytjendum og sviðslistafólki. Frumvarpið gerir ráð fyrir að tekið verði sérstaklega tillit til þess og er það skynsamleg og réttmæt ráðstöfun. Ég styð þetta aukna framlag sem lagt er til í fjárlagafrumvarpinu og tel það eðlilegt í ljósi aðstæðna.

Listamannalaun eru starfslaun sem listamenn geta sótt um árlega. Það fyrirkomulag sem við þekkjum hvað listamannalaun varðar er frá árinu 1991. Lögin sem stuðst er við í dag eru frá árinu 2009. Úthlutun launa af hálfu hins opinbera til listamanna á sér þó mun lengri sögu og mun til að mynda hafa tíðkast alla 20. öldina, ýmist úthlutað beint af alþingismönnum eða aðilum sem þeir tilnefndu. Það fyrirkomulag var umdeilt og voru lögin um starfslaun, sem tóku gildi árið 1991, til mikilla bóta þar sem gengið var út frá hlutlægum vinnubrögðum, bæði við umsókn og úthlutun launanna. Starfslaunin gera það að verkum að hverju sinni getur nokkur hópur manna og kvenna helgað sig list sinni.

Það er fastur liður að listamannalaun komi til umræðu þegar þeim er úthlutað ár hvert. Oft er sú umræða á neikvæðum nótum, því miður. Sumir sjá ofsjónum yfir því að þessi og hinn listamaðurinn hafi fengið úthlutað listamannalaunum í nokkra mánuði. Oftar en ekki er talað um hóp manna sem séu áskrifendur að starfslaununum. Umræðan um listamannalaun hefur haft tilhneigingu til að verða persónuleg enda er þeim í mörgum tilfellum úthlutað til þekktra einstaklinga og fólk hefur oft skoðanir á vinnuframlagi þeirra og gildi þess. Sumir tala jafnvel á þann veg að listamannalaun séu ölmusa. Þeir hinir sömu nota athugasemdakerfið á samfélagsmiðlunum óspart til að hnýta í þá sem fá listamannalaun og oft á tíðum er umræðan um listamannalaun á þeim vettvangi óvægin eins og margt annað sem þar birtist. Þessi umræða hefur valdið því að sumir ágætir listamenn veigra sér við að sækja um listamannalaun, ekki síst fjölskyldu sinnar vegna og barna. Auðvitað hefur það áhrif á fólk þegar ráðist er á það opinberlega fyrir það eitt að það fái tímabundið listamannalaun. Samkvæmt fjárlögum þessa árs eru listamannalaun rúmar 407.000 kr. og launin eru verktakalaun. Síðan þarf að draga af því lífeyrisgreiðslur, orlof og skatt.

Það er erfitt að vera ungur listamaður sem er að byrja. Það eru ekki miklir tekjumöguleikar af bókaútgáfu, svo nefnt sé dæmi, sérstaklega þegar um er að ræða höfunda sem eru að hasla sér völl. Íslenskur bókamarkaður er of smár til að halda uppi atvinnuhöfundum einn og sér. Höfum hugfast að höfundur á borð við Halldór Laxness var lengst af á hæsta skáldastyrk af hálfu hins opinbera. Aðrir höfundar sem við stærum okkur af unnu verk sín með stuðningi af listamannalaunum; Davíð Stefánsson, Þórbergur Þórðarson, Jóhannes úr Kötlum, Steinn Steinarr, Guðmundur Hagalín, Tómas Guðmundsson og fleiri. Og gleymum því ekki að íslenskir höfundar skrifa fyrir eitt minnsta málsvæði í veröldinni. Hlutverk þeirra er mjög mikilvægt fyrir íslenska tungu sem hefur átt undir högg að sækja eins og við þekkjum. Stór hluti af vinnu rithöfundar er í raun sjálfboðavinna. Starfs síns vegna er hann oft kallaður til í útvarpi, í sjónvarpi, í grunnskólum jafnt sem háskólum og á málþingum og oftast nær án þóknunar. Hvað sviðslistirnar varðar er markaðurinn lítill og sýningar fáar. Ég held að það sé óhætt að segja að listamenn séu upp til hópa lágtekjufólk. Það er hins vegar feimnismál hjá mörgum og eflaust ekki þægilegt þegar viðkomandi er sjálfur vörumerkið. Það er eflaust heldur ekki þægilegt að vera synjað um listamannalaun, neitað um úthlutun. Það getur síðan valdið því að viðkomandi hættir að skapa.

Ég held að almennt sé fólk jákvætt gagnvart listamannalaunum og starfandi listamönnum. Hávær minni hluti í athugasemdakerfi samfélagsmiðlanna má ekki stjórna umræðunni og á ekki að gera það. Þeim fjármunum sem ríkissjóður ver í listamannalaun er skilað til baka með margvíslegum hætti. Það myndast störf í kringum listirnar, höfum það hugfast og gleymum því ekki. Greinin skilar virðisauka, bækur eru seldar og sömuleiðis listmunir, við sækjum sýningar og tónleika, ferðamenn sækja landið gagngert heim vegna listamanna og er sá hópur stærri en margan grunar. Mikilvægt er að sýnileiki listamannalauna sé góður. Með auknum sýnileika sjóðsins eflist vitund almennings um mikilvægi listamannalauna. Það eru t.d. ekki allir sem vita það að sjóðurinn stendur einnig fyrir nýliðun í greininni. Að lágmarki er 5% úthlutaðra mánaða hvers sjóðs úthlutað til listamanna sem ekki hafa fengið úthlutað áður. Það er mikilvægt. Auk þess er lögð áhersla á að úthlutanir endurspegli alla þá flóru listsköpunar sem á sér stað á hverju sviði.

Í fjárlaganefnd og í störfum mínum þar heyrum við oft nefnt hugtakið landsframleiðsla, ekki síst núna þegar skuldir ríkissjóðs aukast hratt. Þá er gjarnan rætt um skuldir sem hlutfall af landsframleiðslu. Ýmsar atvinnugreinar leggja sitt af mörkum til landsframleiðslunnar; sjávarútvegurinn, ferðaþjónustan, iðnaðurinn, landbúnaðurinn o.s.frv. Alls kyns þjónusta er nátengd atvinnugreinum eins og landbúnaði og sjávarútvegi. Það sama á við menningu og listir. Höfum það síðan í huga að allar atvinnugreinar styðja hver aðra. Það væri fróðlegt að sjá tölur um það hver hlutur lista sé í raun í landsframleiðslunni. Hann er mun meiri en menn halda. Menning og listir eru mikilvæg atvinnugrein og umsvifamikill þáttur í hagkerfinu. Það má ekki gleyma því að það eru verðmæti í því að koma menningu og listum á framfæri, sama í hvaða formi það er.

Við getum ekki mælt allt í landsframleiðslu og peningum, herra forseti. Listir og menning hafa jákvæð áhrif í samfélaginu sem mælast ekki í hagvexti en það er aukin vellíðan einstaklinga. Við höfum svo sannarlega séð mikilvægi listarinnar, tónlistarinnar svo dæmi sé tekið, nú á þeim erfiðu tímum sem við göngum í gegnum á tímum veirufaraldursins. Tónlistarmenn hafa stytt okkur stundir á skjánum og er það ómetanlegt í þeirri einangrun sem margir hverjir búa við vegna veirufaraldursins. Bein framlög eins og listamannalaun eru ekki eina leiðin til að styðja við greinina, skattaívilnanir geta verið jákvæð leið. Þannig ætti fyrirtækjum sem verja fé til lista og menningar að vera heimilt að draga það frá tekjum með tilteknu álagi. Það hefur m.a. verið lagt til á vettvangi Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO.

Herra forseti. Að lokum ætti að vera sameiginlegt verkefni okkar allra hér á Alþingi að styðja við leiðir til að auka umsvif lista og menningar í hagkerfinu. Það er þjóðarhagur.