151. löggjafarþing — 23. fundur,  19. nóv. 2020.

listamannalaun.

310. mál
[14:46]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Mig langaði til að vekja smá athygli á því sem mér finnst vera rangnefni í þessari umræðu. Það er orðið listamannalaun. Þetta eru einfaldlega nýsköpunarstyrkir á sviði lista. Það er ekkert flóknara en það. Kröfurnar eru nákvæmlega þær sömu og þegar sótt er um nýsköpunarstyrki á öðrum sviðum eins og við erum með nýsköpunarstyrki fyrir tækniþróun og fyrir grunnrannsóknir og það er svipað ferli um eftirfylgni og uppsetningu og alls konar skraut.

Ég ætlaði bara að nefna þetta örstuttan því við skulum ekki vanmeta áhrif lista, og þá sérstaklega nýsköpunar, bæði efnahagsleg og samfélagsleg áhrif lista. Sem dæmi var land, Suður-Kórea, sem tók þá ákvörðun að gera list að útflutningsvöru og það var hið svokallaða Kóreupopp eða „K-pop“ sem er núna, tveimur áratugum seinna, 5 milljarða dollara útflutningsvara. Og svo ég setji þá tölu í íslenskt samhengi þá eru þetta 682 milljarðar íslenskra króna, þessi útflutningsvara frá Suður-Kóreu, út af opinberri ákvörðun um að gera listir að útflutningsvöru. Þetta er sá möguleiki sem er til staðar í nýsköpun á sviði lista, alveg eins og í tækni og í grunnrannsóknum og þess háttar. Ég vil bara vekja athygli á því vegna þess að það hefur verið svo neikvætt að nota orðið listamannalaun eins fallegt og það nú er. Í raun og veru eru þetta nýsköpunarstyrkir á sviði lista. Það er ekkert flóknara, ekkert meira eða minna en það, en gríðarlega mikilvægt og möguleiki til framtíðarvelmegunar.