151. löggjafarþing — 23. fundur,  19. nóv. 2020.

listamannalaun.

310. mál
[15:01]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nefna það að í kvikmyndastefnu til ársins 2030 er líka fjallað um hvernig við getum aukið samkeppnishæfni endurgreiðslukerfisins. Þannig að þrátt fyrir að ekki sé búið að taka þessa ákvörðun er ekki þar með sagt að hún verði ekki tekin í framtíðinni. Ég er sammála hv. þingmanni, þær pólitísku og samfélagslegu áskoranir sem við stöndum frammi fyrir núna og næstu 6, 12 og 18 mánuði snúast allar um að skapa atvinnu. Allt sem við getum gert til að búa til ný störf verður þess virði. Það sem við höfum verið að gera þessa dagana, ríkisstjórnin, er að búa til efnahagslega loftbrú yfir þetta tímabil sem er sannarlega óvenjulegt. Það sem mun gerast er að við munum sjá hversu sterkt íslenskt samfélag er. Við höfum séð hvað við erum með öflugt heilbrigðiskerfi. Við höfum séð hversu öflugt menntakerfið er. Núna erum við líka að móta stefnur í menningunni og kvikmyndastefnan er þar. Aðgerð 6 í stefnunni snýr að því sem kemur fram í máli hv. þingmanns. Ég er mjög hlynnt því að við förum betur yfir þetta með það að leiðarljósi að búa til ný og spennandi störf.

Svo vil ég líka nefna að eitt af því sem við ætlum að gera er að bjóða upp á nám á háskólastigi í kvikmyndagerð. Það er því mjög mikið að gerast hvað varðar kvikmyndirnar.