151. löggjafarþing — 23. fundur,  19. nóv. 2020.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 168/2020 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

302. mál
[15:03]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 168/2020 sem mælir fyrir um reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins, 2019/631, frá 17. apríl 2019 um að setja staðla um frammistöðu vegna losunar koltvísýrings fyrir nýjar fólksbifreiðar og ný, létt atvinnuökutæki og um niðurfellingu reglugerða nr. 443/2009 og nr. 510/2011. Reglugerðin, sem felld var inn í samninginn með ákvörðun nr. 168/2020, hefur það að markmiði stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda frá ökutækjaflota á EES-svæðinu í skrefum til ársins 2030.

Með Parísarsáttmálanum var sett markmið um að halda hækkun loftslagshita á jörðinni frá iðnbyltingu undir 2°C. Í því ljósi er talið óumflýjanlegt að umbylta samgöngukerfi allra aðildarlanda sáttmálans þannig að kolefnisfótspor verði minna en nú er og mögulega ekkert. Var í þeim tilgangi talið nauðsynlegt að herða þau markmið og aðgerðir að draga úr koltvísýringslosun sem mælt hafði verið fyrir um í reglugerðum nr. 443/2009 og nr. 510/2011 er varða mengunarvarnir einkabifreiða annars vegar og hins vegar léttra atvinnuökutækja. Nýja reglugerðin nær yfir gildissvið beggja reglugerðanna, þ.e. bæði til einkabifreiða og léttra atvinnuökutækja. Við undirbúning að setningu reglugerðarinnar innan Evrópusambandsins var haft samráð við efnahags- og félagsmálanefnd Evrópusambandsins sem og svæðanefnd sambandsins.

Í gerðinni eru settir staðlar um frammistöðu vegna losunar koltvísýrings frá nýjum ökutækjum sem og um skyldur framleiðenda ökutækja í þeim efnum. Þá eru settar fram reglur um ýmsar heimildir framleiðenda til að ná þessum markmiðum.

Gera þarf breytingar á umferðarlögum nr. 77/2000 til að hægt sé að leggja umframlosunargjald á framleiðendur ökutækja. Því kallar innleiðing gerðarinnar á lagabreytingu hér á landi. Sú lagabreyting mun þó í framkvæmd ekki hafa nein áhrif hér á landi þar sem framleiðendum ökutækja er ekki til að dreifa hér á landi. Framleiðendur færri en 1.000 ökutækja sem eru skráð árlega á Evrópska efnahagssvæðinu verða samkvæmt 4. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar almennt undanþegnir greiðslu umframlosunargjalds. Þá geta sjálfstæðir framleiðendur færri en 10.000 nýrra farþegabifreiða eða 22.000 nýrra léttra atvinnuökutækja sem skráð eru á Evrópska efnahagssvæðinu árlega óskað eftir samkvæmt 10. gr. reglugerðarinnar almennri undanþágu frá losunarmarkmiðum sem reiknuð eru samkvæmt aðferðum I. viðauka reglugerðarinnar.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.