151. löggjafarþing — 23. fundur,  19. nóv. 2020.

varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.

311. mál
[15:11]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra fyrir framlagningu þessa frumvarps sem er endurskoðun á eldri lögum með nýju heiti, lög um varnir gegn ofanflóðum. Það er eflaust tímabært að endurskoða þetta og ég velti fyrir mér hvort ekki hefði þurft að ganga dálítið lengra. Við þekkjum það að þessi lög eru ekki ýkja gömul, afstaða okkar til snjóflóðahættu gerbreyttist eftir flóðin miklu og áföllin fyrir vestan árið 1995 þar sem 34 einstaklingar létust. Þar með opnuðust augu almennings fyrir því hversu mikil áhætta er í þessu fólgin og jafnvel í og við byggð í bæjum og þorpum á Íslandi. Snjóflóð hafa hoggið stórt skarð í raðir landsmanna á 20. öld. Það fórust 107 manns í byggð, á atvinnusvæðum eða innan þéttbýlis á 20. öldinni og 59 utan þéttbýlis. Og ég spyr hæstv. ráðherra í ljósi þessa frumvarps, það er verið að þrengja að, það er bara talað um þéttbýli og það er talað um íbúðarhús, ekki húseignir eins og var í gömlu lögunum, og hvað með þessi ákvæði og hvað með húsnæði til sveita, t.d. gripahús, falla þau undir þetta ákvæði? Og hvað með frístundasvæði sem eru oft í eða á jaðri þéttbýlis, jafnvel skíðasvæði líka? Það eru ákvæði um það í þessu frumvarpi ef ráðherra vildi koma aðeins inn á þetta.