151. löggjafarþing — 23. fundur,  19. nóv. 2020.

varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.

311. mál
[15:13]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Því er til að svara að ekki er hér um að ræða breytingu á framkvæmd laganna. Eins og lögin eru í dag og eins og þau hafa verið framkvæmd á grundvelli þeirra reglugerða þá er sjónum hér fyrst og fremst beint að íbúðarhúsnæði og í raun er verið að ítreka það, sérstaklega með markmiðsákvæðinu sem sett eru inn í lögin og byggja á greinargerðinni sem fylgdi upphaflegu lögunum, að þetta eigi sér í lagi við um íbúðarhúsnæði. Hins vegar er það tekið skýrt fram að ef varnarvirki sem byggð eru til að verja íbúabyggð hafa þau áhrif að þau beina flóðum t.d. að öðrum byggingum geta lögin tekið til slíkra bygginga líka. En það er líka mikilvægt að gera sér grein fyrir því að það er ákveðinn munur á því sem en snýr að úttekt á hættu á ofanflóðum. Hægt er að fara í bæði það sem snýr að þéttbýli og dreifbýli og er einmitt verkefni Veðurstofunnar. En hér er ekki um breytingar að ræða á framkvæmd laganna.