151. löggjafarþing — 23. fundur,  19. nóv. 2020.

varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.

311. mál
[15:15]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Varðandi þetta frumvarp: Kom aldrei til álita, leyfi ég mér að spyrja, að tekin yrði afstaða til víðtækari verkunar, þ.e. að þetta varðaði ekki bara ofanflóð? Við þekkjum það að við getum orðið fyrir náttúrulegum áföllum af ýmsu tagi og þekkjum dæmi um ofsaveður og jafnvel hvirfilbyli og annað eftir því. Var ekki hugleitt að þetta yrði víðtækari skilgreining á náttúruvá eða tjóni, t.d. af sjóflóðum eins og við þekkjum dæmi um?

Síðan er verið að skilgreina nánar hlutverk Veðurstofunnar sem mun annast þetta nema að sveitarfélögunum er gert að hafa eftirlit með skíðasvæðum sem geta verið álitamál því að skíðasvæðin eru oft í jaðri byggðar, hvort ekki er hægt að finna einhvern samlegðarflöt þarna. Í lögunum segir líka að sveitarfélag sé eigandi varnarvirkja og beri ábyrgð á viðhaldi þeirra. Verður komið til móts við sveitarfélög að þessu leyti, því að þetta eru gríðarleg mannvirki? Ef tjón verður, hvað þá? Síðan er ofanflóðagjaldið fest í sessi. Það hefur verið gagnrýnt hvernig því gjaldi hefur verið ráðstafað. Það voru 13,6 milljarðar til í sjóði árið 2018, samkvæmt ríkisreikningi. Á þessu ári innheimtir ríkið líklega um 2,7 milljarða kr. í ofanflóðagjald. Er það tryggt, hæstv. ráðherra, að nú verði settur kraftur í þetta og því gjaldi sem innheimt er verði varið til varnaraðgerða?