151. löggjafarþing — 23. fundur,  19. nóv. 2020.

varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.

311. mál
[15:17]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hefur verið heilmikil umræða um það hvort við þurfum ekki að ná betur utan um fleiri gerðir af náttúruvá og hér nefnir hv. þingmaður m.a. sjóflóð. Það mætti nefna fleiri gerðir af náttúruvá en það. Ég vil benda á að í gildi hefur verið bráðabirgðaákvæði við lögin sem eru í gildi til 31. september 2022, þar sem er heimilt að nota fé úr ofanflóðasjóði til að taka þátt í greiðslu kostnaðar við hættumat vegna eldgosa, vatnsflóða og sjávarflóða. Það er í raun undirbúningsvinna sem þar á sér stað til að meta hættuna af þessum gerðum af náttúruvá til að byggja megi á því í framtíðinni varðandi það að geta hugsanlega farið að setja fjármagn í að verja slíkt líka. Það hefur hins vegar verið almenn sátt um að það fjármagn sem fer úr ofanflóðasjóði sé til að verja líf fólks og þá fyrst og fremst í íbúðabyggð. Þetta frumvarp er í raun sett fram til að skerpa á þeirri framkvæmd sem hefur verið samkvæmt lögunum.

Hv. þingmaður kom líka inn á fjármögnunina á þessu. Eins og ég sagði í framsöguræðu hafa í fjármálaáætlun verið tryggðir 1,6 milljarðar kr. á hverju ári í þessi mál og bætist við það sem fyrir var, sem var 1,1 milljarður kr., þ.e. samtals 2,7 milljarðar kr.