151. löggjafarþing — 23. fundur,  19. nóv. 2020.

varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.

311. mál
[15:20]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Ég er ánægður með að hæstv. ráðherra hafi lagt þetta frumvarp fram og ég tel að hér sé mjög margt til bóta í þessum málum. Málið mun koma inn í hv. umhverfis- og samgöngunefnd þar sem við munum fara yfir ýmislegt af því sem hér hefur komið fram, bæði í máli hæstv. ráðherra sem og í andsvörum. Að mínu viti eru einmitt margir hlutir sem þarf að skoða þegar að þessum málum kemur, bæði hvernig framkvæmdin hefur verið hingað til og líka hvort við ættum að víkka þetta út eða hvernig sem það er. Ég hef horft til þess, eins og hv. þm. Guðjón Brjánsson, hvernig skíðasvæði koma inn í þessi mál, þar sem matið er á einum stað en eftirlitið á öðrum, hvað þetta þýði fyrir þau sveitarfélög sem eru með skíðasvæði á sínum svæðum, hvaða kröfur koma annars staðar frá og sveitarfélögin þurfa að standa undir o.s.frv. Nefndin mun væntanlega setjast yfir þetta og finna lausn, hvernig best er að haga þessu. Líf fólks er náttúrlega víðar en á heimilum og í litlum þorpum. Það þarf að horfa heildstætt á hvernig daglegt líf fólks er. Hér er hins vegar færi á að setjast yfir þessi mál og skoða í nefndinni. Það eru mörg góð sjónarmið sem komið hafa fram. Verði þetta að lögum, sem ég vona innilega, mun sú meðferð sem málið fær í nefndinni verða mjög til bóta. En ég vildi bara nefna þau atriði sem ég tel að þurfi að setjast sérstaklega yfir.