151. löggjafarþing — 23. fundur,  19. nóv. 2020.

almannatryggingar.

93. mál
[15:23]
Horfa

Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum, upplýsingaskylda og eftirlitsheimildir. Flutningsmenn auk mín eru Inga Sæland og Helgi Hrafn Gunnarsson.

„1. gr. 2. mgr. 39. gr. laganna fellur brott.

2. gr. 2. og 3. mgr. 40. gr. laganna falla brott.“

3. gr. Í stað orðanna „umsækjanda, greiðsluþega eða maka hans“ í 1. málsl. 41. gr. laganna kemur: umsækjanda eða greiðsluþega.“

Frumvarpið var lagt fram á 149. löggjafarþingi og 150. löggjafarþingi (72. mál) og er nú lagt fram að nýju óbreytt. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á tilteknum ákvæðum um upplýsingaskyldu í lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007. Nánar tiltekið ákvæðum sem heimila Tryggingastofnun ríkisins að afla upplýsinga um tekjur maka umsækjanda eða greiðsluþega samkvæmt lögunum að fengnu skriflegu samþykki beggja og ákvæði er skyldar maka til að taka þátt í meðferð máls. Þá verði umsækjandi eða greiðsluþegi ekki látinn bera hallann vegna skorts á nauðsynlegum upplýsingum sem rekja má til maka hans.

Það er mat flutningsmanna að gildandi ákvæði laganna um upplýsingaskyldu gangi of langt í skerðingu á friðhelgi einkalífs umsækjenda og greiðsluþega og rétti til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika, samanber ákvæði 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Þá er sú meginregla ákveðin í a-lið 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks að virðing skuli borin fyrir meðfæddri göfgi og sjálfræði einstaklinga, þar með talið frelsi til að taka eigin ákvarðanir, og sjálfstæði þeirra.

Er það mat flutningsmanna að ákvæði gildandi laga um almannatryggingar séu íþyngjandi og leggi of ríkar kvaðir á einstakling, sem nýtur réttinda samkvæmt samningnum, að afla upplýsinga hjá maka og íþyngi einstaklingi sem bera þarf hallann af vanrækslu maka á því að sinna upplýsingaskyldu sinni. Lögin heimila þannig frestun á ákvörðun og greiðslu bóta vegna atriða sem ekki verða rakin til umsækjanda eða greiðsluþega sjálfs.

Með vísan til umsagna sem velferðarnefnd bárust við meðferð málsins á síðastliðnu þingi skal þess getið að á grundvelli 43. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, getur Tryggingastofnun aflað upplýsinga, sem nauðsynlegar eru til að unnt sé að framfylgja lögunum, frá þeim aðilum sem getið er í ákvæðinu án aðkomu maka þeirra.

Ef við tökum þetta dæmalausa mál þá er mitt álit á því að þarna séu á ferðinni hrein og klár mannréttindabrot. Þarna er verið í lögum að bæta þriðja aðila inn í málefni örorkulífeyrisþega. Það er verið að skylda og setja kvaðir á maka viðkomandi aðilar sem sækir um örorkubætur hjá Tryggingastofnun ríkisins og kvaðirnar eru svo gífurlegar að ef maki fer ekki að öllu því sem þar er fyrir sett er hægt að neita umsókn þess sem sækir um örorkulífeyri, jafnvel svipta hann lífeyri ef hann hefur fengið umsókn samþykkta. Þetta brýtur, tel ég, mannréttindi og persónuvernd. Þar af leiðandi á þetta bara alls ekki að vera í lögum.

Þegar þetta mál var lagt fram í á síðasta þingi sendi Öryrkjabandalagið athugasemd við málið. Með leyfi forseta, segir orðrétt:

„Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) hefur fengið til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007 (upplýsingaskylda og eftirlitsheimildir), 72. mál.

ÖBÍ tekur undir með flutningsmönnum frumvarpsins að eftirlitsheimildir Tryggingastofnunar og upplýsingaskylda einstaklinga gangi of langt þegar þriðja aðila, maka umsækjanda, er gert að taka þátt í meðferð máls sem í raun er ekki tengt honum.

Eins og Tryggingastofnun ríkisins (TR) rekur í umsögn sinni eru það fjármagnstekjur maka sem geta haft áhrif á útreikning lífeyris sem stofnunin greiðir út. Einu gögnin sem TR notar til að skoða fjármagnstekjur umsækjanda og maka hans eru skattframtöl aðila. Fjármagnstekjur eru einu tekjur maka sem geta haft áhrif á lífeyri og því ljóst að engin ástæða er fyrir TR að krefjast upplýsinga frá maka eða fresta afgreiðslu mála vegna skorts á upplýsingum frá maka. Samkvæmt 43. gr. almannatryggingalaga er ýmsum aðilum, m.a. skattyfirvöldum, skylt að veita TR upplýsingar að því marki sem það telst nauðsynlegt til að unnt sé að framfylgja lögunum. Er því ljóst að TR getur óskað eftir skattframtölum beint frá skattyfirvöldum ef nauðsyn krefur og því ekki þörf á því að krefjast aðkomu maka lífeyrisþega að afgreiðslu stofnunarinnar.“

Svo mörg voru þau orð frá Öryrkjabandalaginu. Þetta segir okkur alla söguna. Á sínum tíma sendi Tryggingastofnun ríkisins umsögn og þar kemur skýrt fram, algjörlega skýrt, að eina ástæðan fyrir því að Tryggingastofnun vill hafa þetta inni er upp á fjármagnstekjur maka. Það er gjörsamlega óskiljanlegt í núverandi fyrirkomulagi vegna þess að það fer enginn á örorkulífeyri án þess að þeir fái skattskýrsluna og staðurinn sem þeir geta fengið upplýsingar um fjármagnstekjur er í skattskýrslu. Þannig að hafa þessa heimild svona víðtæka í lögunum, í því samhengi að fá upplýsingar sem þeir hafa nú þegar, er algjör óþarfi. Það er því miður ljótur angi laganna að hafa þessa heimild til upplýsinga inni sem gengur það langt að það er hreinlega verið að brjóta persónuverndarlög.

Ég tel að ekki þurfi að hafa miklu fleiri orð um þetta mál og ég vona heitt og innilega að við sjáum til þess núna í eitt skipti fyrir öll að þessi heimild verði tekin út. Það kostar ríkið ekki krónu, ekki eina krónu, að samþykkja þessa breytingu á lögum. En það gerir að verkum að almannatryggingalög verða betri. Það verður ekki í þeim kafli sem brýtur persónuverndarlög og að ég tel líka mannréttindi og sé jafnvel brot á samningi Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks.

Það er óþolandi að stofnun eins og Tryggingastofnun ríkisins sé að reyna að verja það að hafa eitthvað inni í lögum til að reyna að sannfæra sjálfa sig eða löggjafarvaldið um að hún þurfi að hafa þessa heimild til þess að ná einhverjum upplýsingum sem þeir hafa nú þegar og fá sjálfvirkt.

Við vorum komin það langt að hætta að tekjutengja við maka og spyrða maka við örorkulífeyrisþega. En á sínum tíma þegar þessi lög voru sett, þessi ólög eins og ég myndi segja, voru þau samþykkt í flýti. Eftir að lögin voru samþykkt og þau komust í umræðu hérna tóku Píratar sig til og báðust afsökunar á mistökunum í þessum lögum. En það tók enginn annar ábyrgð á því og reyndi að koma þessum lögum frá. Og eins og kemur fram er Helgi Hrafn Gunnarsson, Pírati, meðflutningsmaður þessa frumvarps og samþykkir þar af leiðandi og er með í því núna að breyta þeim lögum sem voru á sínum tíma samþykkt í flýti án nægilegrar athugunar, algjörlega tilgangslaust. Ég vona heitt og innilega að nú verði séð til þess að þetta fari út vegna þess að þetta er ljótur hængur og ljótt að hafa svona hluti í lögum.