151. löggjafarþing — 23. fundur,  19. nóv. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

88. mál
[15:55]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Forseti. Þetta er einfalt frumvarp um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, afnám takmarkana. Það hljóðar svo: „2. málsl., 2. mgr. 10. gr. laganna fellur brott“. Það var áður lagt fram á 150. þingi og er lagt fram að nýju efnislega óbreytt.

Kveðið er á um lágmarkstíma sem starfsmanni er heimilt að taka fæðingarorlof. Í 2. málslið 2. mgr. 10. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof segir að aldrei megi taka fæðingarorlof skemur en tvær vikur í senn, en með frumvarpinu er felld úr gildi takmörkun á því hversu stuttan tíma í einu hægt er að taka fæðingarorlof. Slík takmörkun er óþörf enda er fæðingarorlof alltaf tekið í samráði við vinnuveitanda. Þegar starfsmaður telur sig hafa hag af því að taka fæðingarorlof í svo stuttan tíma er rétt að sá möguleiki sé til staðar.

Við meðferð málsins á 150. löggjafarþingi barst velferðarnefnd umsögn umboðsmanns barna um málið. Í umsögninni segir umboðsmaður það vissulega vera mikilvægt að tryggja foreldrum sveigjanleika við töku fæðingarorlofs en tryggja verði að eftirlit sé haft með því að fæðingarorlofi sé raunverulega ráðstafað í þágu barna þannig að foreldrar leggi niður launuð störf á vinnumarkaði. Ástæðan fyrir því að lágmarkstími fyrir töku fæðingarorlofs hafi verið lengdur úr einni viku í tvær hafi verið sú að það hafi viljað brenna við að foreldrar hafi ekki lagt niður störf þegar þeir hafa einungis tilkynnt um fæðingarorlof í eina viku. Það hafi síðan gert framkvæmdaraðilum kerfisins erfiðara fyrir að fylgjast með því hvort foreldri leggi sannanlega niður störf í svo stuttan tíma. Með hliðsjón af þessu telur umboðsmaður ekki ástæðu til að leggja til þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu.

Fyrirkomulag laganna um lágmarkstíma fæðingarorlofs er erfitt í framkvæmd fyrir foreldra sem eru í óreglulegu vakta- og hlutastarfi og ekki með fastan vinnutíma. Tveggja vikna lágmarkstími kann því að virkja letjandi fyrir foreldra í slíkum aðstæðum, sem vinnur gegn því markmiði laganna að tryggja börnum umönnun foreldra á mikilvægasta æviskeiði þeirra. Ekki er hægt að fallast á það sem rök fyrir tveggja vikna lágmarkstíma að það sé erfitt fyrir framkvæmdaraðila kerfisins að fylgjast með því hvort foreldrar leggi raunverulega niður störf á umsömdum tíma. Þar tekur hið opinbera fram fyrir hendur einstaklinga til að sinna sínum þörfum en ekki þörfum foreldra og barna.