151. löggjafarþing — 23. fundur,  19. nóv. 2020.

skattar og gjöld.

314. mál
[16:39]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir margt af því sem hv. þm. Birgir Þórarinsson sagði áðan. Hann rifjaði það upp að Miðflokkurinn hefði viljað afnema tryggingagjaldið fyrir komandi ár og mynda þannig viðspyrnu fyrir fyrirtækin. Ég er sammála því að tryggingagjaldið er ekkert sérstaklega skynsamlegur gjaldstofn þegar litið er til þess að það er í raun skattur á störf. Vandinn sem hv. þingmaður stendur frammi fyrir, líkt og ég geri, er hins vegar sá að þetta er gríðarlega stór tekjustofn ríkisins, yfir 100 milljarðar, og það hefur reynt töluvert mikið á ríkissjóð eins og hv. þingmaður, sem situr nú í fjárlaganefnd, veit vel.

Við höfum þurft að auka útgreiðslur vegna atvinnuleysistrygginga. Við höfum líka varið ráðningarsamband milli fyrirtækja og launafólks með hlutabótakerfi. Það eru verulegir fjármunir sem hafa farið í það og fram undan er að framlengja hlutabótakerfið fram á næsta ár. Og þegar menn koma hér fram og tala um að það gangi ekkert í því að lækka tryggingagjaldið verða þeir að hafa í huga að tryggingagjaldið hefur lækkað um a.m.k. 12% í tíð þessarar ríkisstjórnar. Það eru verulegir fjármunir, það eru upp undir 20 milljarðar á ári.

Það er frekar ódýrt í mínum huga að hv. þingmaður komi hér upp og slái sig til riddara og segi: Við í Miðflokknum ætlum bara að fella niður tryggingagjaldið á næsta ári. Þá spyr ég: Er hv. þingmaður að leggja það til að halli á ríkissjóði aukist um 100 milljarða á komandi ári? Eða ætlar hann að fjármagna það sem upp á vantar, þessa 100 milljarða, með einhverjum öðrum hætti? Ef svo er væri gott að fá upplýsingar um hvar þær skatttekjur (Forseti hringir.) er að finna eða hvaða útgjöld hv. þingmaður ætlar að skera niður.