151. löggjafarþing — 23. fundur,  19. nóv. 2020.

skattar og gjöld.

314. mál
[16:44]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Þá skil ég hv. þingmann þannig að tillögur hans og flokksfélaga hans snúist um að lækka tryggingagjald á fyrirtækjum sem orðið hafa fyrir áföllum. Er það rétt, hv. þingmaður? Er það rétt að hugmyndir Miðflokksins snúist eingöngu um það að lækka tryggingagjald á þau fyrirtæki, og ekki síst minni fyrirtæki, sem hafa orðið fyrir áfalli? Ef svo er vil ég nú benda hv. þingmanni á að stjórnvöld hafa þegar gripið til mjög umfangsmikilla aðgerða. Í síðustu viku vorum við að samþykkja hér allt að 23 milljarða tekjufalls- og lokunarstyrki til fyrirtækja sem hafa þurft að glíma við áföll í rekstri sínum og ríkisstjórnin er búin að boða enn frekari aðgerðir í viðspyrnustyrkjum sem ég geri ráð fyrir að við fáum hér inn á okkar borð í komandi viku. En getur hv. þingmaður staðfest það að tillögur Miðflokksins, þegar kemur að tryggingagjaldinu, snúist þá eingöngu um að lækka tryggingagjald á þau fyrirtæki sem hafa orðið fyrir áföllum, sem er í raun önnur útfærsla á því sem ríkisstjórnin hefur verið að gera í formi lokunarstyrkja, tekjufallsstyrkja, stuðningslána og viðspyrnustyrkja þegar þeir taka við hér á nýju ári?