151. löggjafarþing — 23. fundur,  19. nóv. 2020.

skattar og gjöld.

314. mál
[16:46]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Við höfum lagt áherslu á það, hv. þingmaður, í málflutningi okkar, þegar kemur að tryggingagjaldinu, að styðja við bakið á þeim fyrirtækjum sem hafa tiltölulega fáa starfsmenn miðað við stóru fyrirtækin, og þá höfum við talað um tvo til tíu starfsmenn. Það er ekkert verið að tala um að það snúi eingöngu að þeim fyrirtækjum sem hafa lent í erfiðleikum. Það er verið að leggja þetta þannig upp að þessi fyrirtæki hafi þá meiri möguleika til að bæta við sig starfsfólki og halda sínu starfsfólki, um það snýst málið. Eins og ég nefndi áðan þá eru hér fyrirtæki sem hafa staðið sig vel, eru stór og hafa ekki orðið fyrir áhrifum vegna veirufaraldursins. Við sjáum ekki ástæðu til að fara að fella niður gjaldið hjá þeim sérstaklega.

En ég vil hins vegar taka það fram, af því að hv. þingmaður nefndi þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur lagt upp með, og þá einnig fyrir fyrirtæki, lokunarstyrki fyrir minni fyrirtæki, stuðningslán og allt slíkt, að við í Miðflokknum höfum stutt þær aðgerðir, svona rétt til að halda því til haga. Við höfum komið með fleiri hugmyndir sem við komum á framfæri. Meira að segja sendum við forsætisráðherra tölvupóst um tillögur okkar vegna þess að það var erfitt að koma þeim á framfæri, og hæstv. forsætisráðherra óskaði eftir því. Við höfum lagt okkar af mörkum í því að milda það högg sem efnahagslífið hefur orðið fyrir og atvinnulífið. Hins vegar hefur ríkisstjórnin ekki séð ástæðu til að styðja tillögur okkar, sem við höfum lagt fram hér við fjáraukalög o.s.frv. Það er rétt að halda því til haga. En hugmyndir Miðflokksins varðandi tímabundna niðurfellingu á tryggingagjaldi snúa að minni og meðalstórum fyrirtækjum til þess að styrkja rekstrargrundvöll þeirra svo að (Forseti hringir.) þau geti ráðið til sín starfsfólk og haldið því starfsfólki sem þau þegar hafa.