151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

þjónusta sálfræðinga og geðlækna.

[13:50]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að þeir eru svolítið skringilegir tónarnir varðandi forgangsröðun frá ríkisstjórninni. Í miðjum heimsfaraldri er verið að setja fram niðurskurðarkröfu upp á marga milljarða á Landspítalann. Það er ekki hægt að horfa á þetta sem hagræðingarkröfu, ekki ef hún er rýnd. Það þarf m.a. að fresta uppbyggingu innviða, það er ekkert annað en niðurskurðarkrafa. Og korteri eftir Landakotsskýrsluna er þetta afar furðuleg forgangsröðun.

En gott og vel. Í viðtali við hæstv. ráðherra í Kjarnanum er hún spurð um geðheilbrigðismál, af því að eftir því er tekið að það er ekkert eyrnamerkt fjármagn í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar þegar kemur að lögum um samtalsmeðferðir. Þetta eru lög sem voru samþykkt samhljóða hér á þingi af öllum flokkum, um að fella nauðsynlegar, klínískar samtalsmeðferðir undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga Íslands. Ráðherra getur um það í þessu viðtali að nú eigi sér stað vinna og að fara þurfi yfir það hversu miklum fjármunum eigi að ráðstafa í þennan samning.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hversu langt er sú vinna komin? Verður sviðsmyndin klár strax á nýju ári? Og við skulum hafa það hugfast að heilsugæslan — ég geri mér grein fyrir því að hæstv. ráðherra bendir sífellt þangað — annar ekki því fólki sem er á biðlistunum. Það má kannski segja að eitt af einkennismerkjum þessarar ríkisstjórnar séu biðlistar í heilbrigðiskerfinu. Af hverju? Af því að það má ekki leita til sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólks hér á Íslandi.

Við verðum að horfa á vanda fólksins. Verið er að kalla eftir meðferðum, úrræðum, og þá verðum við einfaldlega að kalla alla á dekk til að svo verði. Það þýðir ekki að útiloka sjálfstætt starfandi sálfræðinga eða annað heilbrigðisstarfsfólk til að taka á þessu. Ég spyr hæstv. ráðherra: Munum við sjá skýra sviðsmynd strax á nýju ári þannig að hægt verði að uppfylla þau lög sem samþykkt voru samhljóða hér á þingi fyrir nokkrum vikum?