151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

þjónusta sálfræðinga og geðlækna.

[13:54]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég frábið mér það að ráðherra skuli segja að við séum að tala niður opinbera heilsugæslu. Það er bara ekki þannig. Hins vegar er staðreyndin sú að fólk er á biðlistum, m.a. eftir klínískri sálfræðimeðferð o.fl. Því er ekki að leyna að við í Viðreisn höfum ítrekað lagt fram tillögur til þess að leysa biðlistana með því m.a. að samþætta opinbera þjónustu og sjálfstætt starfandi heilbrigðisþjónustu. Í því er engin ógn svo lengi sem markmiðið er skýrt og markmiðið er að losa fólk undan þjáningum sem hefur verið mánuðum og árum saman á biðlistum. Þess vegna segi ég: Við þurfum allar hendur á dekk. En ítrekað hefur ríkisstjórn Vinstri grænna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks fellt tillögur okkar sem stuðla m.a. að því að reyna að leysa þennan biðlistavanda, hvort sem við erum að tala um liðskiptaaðgerðir, mjaðmaaðgerðir eða sálfræðimeðferð. Það liggur alveg ljóst fyrir að ungt fólk er á biðlistum eftir sálfræðimeðferð. Verið er að segja að samhliða sóttvarnaaðgerðum þurfum við að huga að lýðheilsu landans. Við þurfum að (Forseti hringir.) huga að líðan þjóðar. Eins og staðan er núna munu þau fjárframlög sem eru áætluð í fjárlögum, (Forseti hringir.) ekki duga til þess að hjálpa fólki sem er að leita eftir þjónustu. Þess vegna segi ég: Hvað ætlar ráðherra (Forseti hringir.) að gera til að stuðla að því að allar hendur komi raunverulega á dekk (Forseti hringir.) til að mæta þörfum fólksins okkar?

(Forseti (SJS): Forseti biður hv. þingmann að gæta að tímamörkum.)