151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

útflutningur á óunnum fiski.

[14:11]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegur forseti. Ég kallaði eftir því hjá hv. þingmanni hvaða hugmyndir hann hefði til að auka við afla unninn hér innan lands. (Gripið fram í.) Ekki ein einasta hugmynd. Það sem kom fram hjá hv. þingmanni var að saka pólitískan andstæðing um kjarkleysi, það eru frasarnir sem við þekkjum. Þegar menn eru komnir í algjört málefnalegt þrot þá er hjólað í manninn með þeim hætti sem hv. þingmaður gerir. Þessi umræða skilar okkur ekki neinu. Ég kalla eftir tillögum að lausnum og ég skal ræða þær hvar og hvenær sem er.

Þegar hér er fullyrt að það sé allt of mikið flutt út af íslenskum fiski þá spyr ég: Hvert á markið að vera? Mér þætti vænt um að heyra það vegna þess að ég veit að t.d. á strandveiðunum í sumar þökkuðu menn fyrir þann möguleika að geta selt aflann við sem hæstu verði.

Varðandi aflaregluna þá bið ég hv. þingmann að hafa það í huga að forsendan fyrir því (Forseti hringir.) hvernig við getum verðlagt íslenskar sjávarafurðir á erlendum mörkuðum er að við höfum vottanir á þeim afla sem við erum að draga úr sjó. Eitt af því er það að við vinnum á grundvelli sjálfbærrar nýtingar og ráðgjafar vísindamanna.