151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

húsakostur Landakots og sóttvarnaaðgerðir.

[14:12]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Forseti. Markmið sóttvarnaaðgerða hefur frá upphafi verið að vernda viðkvæmustu hópana. Miðað við ástand og þann húsakost sem heilbrigðiskerfið hefur úr að spila má segja að heppni og þrautseigja heilbrigðisstarfsfólks hafi bjargað okkur þangað til í lok október. Smiti á Landakoti fylgdi sá harmleikur að 13 einstaklingar, sem höfðu verið sjúklingar þar, létust úr Covid-19 sjúkdómnum. Smitið hefur verið tilkynnt sem alvarlegt atvik. Niðurstaða bráðabirgðaskýrslu Landspítalans er að mistök starfsfólks hafi ekki valdið því að svo fór sem fór heldur hafi það fyrst og fremst verið vegna ófullnægjandi húsakosts spítalans í bland við manneklu. Bæði sóttvarnalæknir og landlæknir hafa í kjölfar atviksins á Landakoti lýst því yfir að þeir telji íslenskt heilbrigðiskerfi ekki burðugt til að takast á við faraldur eins og þann sem nú gengur yfir og því höfum við þurft að fara einstaklega vandlega með allar sóttvarnaaðgerðir.

Forseti. Í ljósi þess að hæstv. heilbrigðisráðherra hefur nú setið í embætti í rúm þrjú ár langar mig að spyrja hvort ráðherra hafi ekki verið meðvitaður um það áður en atvikið á Landakoti átti sér stað að húsakostur og mönnun Landakotsspítala væri langt fyrir neðan þær öryggiskröfur sem gerðar eru um slíkar heilbrigðisstofnanir. Ef svo er, hvað hafði ráðherra gert til að aðstæður yrðu bættar og öryggi sjúklinga og starfsfólks tryggt á þeirri stofnun?

Að lokum spyr ég hvort hæstv. heilbrigðisráðherra líti ekki svo á að ráðherra sjálfur beri endanlega ábyrgð á gæðum og frammistöðu undirstofnana síns ráðuneytis þegar upp koma alvarleg atvik sem rekja má til ástands þeirra.