151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

ráðstafanir gegn óréttmætri takmörkun á netumferð o.fl.

23. mál
[16:25]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Við í hv. efnahags- og viðskiptanefnd vorum með þetta góða frumvarp til umfjöllunar. Til að byrja á að skýra það er markmið þessara laga að koma í veg fyrir óréttmætar takmarkanir á netumferð og aðra mismunun sem byggist á þjóðerni, búsetu eða staðfestu viðskiptavinar og efla netviðskipti yfir landamæri innan Evrópska efnahagssvæðisins. Einhvern tímann á síðasta ári vorum við með sambærilegt mál í utanríkismálanefnd þegar verið var að taka þessar reglur upp í EES-samninginn. Hér er komið frumvarp til að fylgja því eftir.

Eins og segir í nefndarálitinu hefur nefndin fjallað um málið og fékk á fund sinn Heimi Skarphéðinsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Gunnar A. Ólafsson og Heimi Örn Herbertsson frá Nova hf. og Breka Karlsson og Einar Bjarna Einarsson frá Neytendasamtökunum.

Umsagnir um málið voru eingöngu tvær og voru frá Neytendasamtökunum og Nova hf. Þá barst nefndinni líka minnisblað frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu til að bregðast við þeim athugasemdum sem fram höfðu komið í umsögnum þessara umsagnaraðila.

Með frumvarpinu er lagt til að innleiða í íslenskan rétt reglugerð (ESB) 2018/302 um ráðstafanir gegn óréttmætum landfræðilegum takmörkunum á netumferð og annarri mismunun sem byggist á því hvert þjóðerni viðskiptavinar er, hvar hann er búsettur eða hvar hann hefur staðfestu á innri markaðnum. Með frumvarpinu er því lagt til að sett verði ný heildarlög um ráðstafanir gegn óréttmætri takmörkun á netumferð o.fl. Um efni og markmið frumvarpsins að öðru leyti vísast til greinargerðar með því.

Í umsögn Neytendasamtakanna er vakin athygli á því að aðstoð við neytendur á grundvelli 8. gr. reglugerðarinnar falli vel að hlutverki Evrópsku neytendaaðstoðarinnar (ECC) á Íslandi, sem hýst er hjá Neytendasamtökunum. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að ráðuneytið og Neytendasamtökin hafi komist að niðurstöðu um að samtökunum verði falið þetta hlutverk.

Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Undir þetta nefndarálit skrifa, ásamt mér, hv. þingmenn Óli Björn Kárason formaður, Brynjar Níelsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Oddný G. Harðardóttir, Smári McCarthy, Jón Steindór Valdimarsson, Ólafur Þór Gunnarsson og Willum Þór Þórsson.

Að lokum, til að setja þetta fram á mannamáli, ætti þetta að gera íslenskum neytendum auðveldara fyrir að kaupa vörur eða þjónustu á netinu og söluaðilar geta þá ekki mismunað eða sagt að þeir selji ekki til ákveðinna aðila eða ákveðinna svæða. Þess ber þó að geta að ekki er sett skylda á söluaðila að senda til viðkomandi landa þannig að neytendur þurfa þá ef svo er að finna aðrar lausnir til að nálgast vöruna eða þjónustuna. Ég tel, virðulegur forseti, að hér sé um hagsmunamál að ræða og það kom til að mynda vel fram í umsögn Neytendasamtakanna sem fögnuðu þessu frumvarpi mjög og lögðu til að það yrði afgreitt hratt og vel á Alþingi.