151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[17:24]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið, að fara yfir mikilvægi nýsköpunar og þeirra sjóða sem hann nefndi hér og ég tek að sjálfsögðu undir það. En ég óttast að t.d. með því að setja á laggirnar þennan nýja sjóð, sem við erum að fara að ræða, Tækniþróunarsjóð, sé í raun og veru verið að hverfa frá því að einyrkjar, ef við getum orðað það svo, á sviði nýsköpunar fái aðgang að þessu þolinmóða fé sem þeir þurfa nauðsynlega á að halda til þess að geta sinnt nýsköpun sinni. Það eru stórir aðilar í kringum þessa sjóði, ríkisstyrktir háskólar og fleiri. Það sýnir bara að þarna eru lítil hagsmunasamtök sem skipta miklu máli og búin að vinna mikla sjálfboðavinnu, hafa fengið viðurkenningu erlendis, eins og KVENN, félag kvenna í nýsköpun, o.s.frv., að verið er að draga úr stuðningi við þessa hópa, sem ég hef miklar áhyggjur af og finnst það vera algerlega á skjön við það sem verið er að gera hér í nýsköpunarmálum. Það er mikilvægt að talað sé fyrir mikilvægi nýsköpunar, sérstaklega á þessum erfiðu tímum. Þess vegna vildi ég koma þessu á framfæri. Af því að hv. þingmaður minntist á það hef ég áður rætt þetta við hæstv. ráðherra. Það var lítið um svör en farið í kringum hlutina, eins og oft vill verða þegar ráðherrar eru spurðir. En ég legg áherslu á að það er mjög mikilvægt að sinna þessum hópi. Þetta er fámennur hópur en sinnir gríðarlega mikilvægu starfi, m.a. samskiptum við þá sem eru að byrja í nýsköpun, veitir leiðbeiningar, heldur fyrirlestra og annað slíkt, sem er ákaflega mikilvægt.