151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[21:25]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Mitt fyrsta svar er að ég lít svo á að greiðslur til fólks í fæðingarorlofi séu jákvæðir hvatar, ekki boð og bönn. Enginn er skikkaður til að taka fæðingarorlof eða þiggja greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði þannig að í mínum huga eru þetta einmitt jákvæðir hvatar fyrir bæði kynin til að njóta samvista við barnið sitt, bæði þeim og barninu til heilla.

Ég tek bara undir það að þetta eru réttindi barna. Ég ræddi það sem fjölskyldumál en það er líka samfélagsmál og risastórt jafnréttismál og allt hangir þetta saman. Ég held að eitt af því besta sem við getum líka gert fyrir börnin sem fæðast á þessu ári og næsta ári og njóta þessa orlofs sé einmitt líka að vinna að auknu jafnrétti í samfélaginu. Ég hef alltaf litið á það þannig að Fæðingarorlofssjóður og það að við séum að auka réttindi fólks til töku fæðingarorlofs, þá ítreka ég einmitt að það eru réttindi, sé hvati. Það er enginn að segja með þessu að fólk þurfi að taka sex mánuði í fæðingarorlof, allir geta auðvitað valið að taka skemmri tíma. Þeir sem hafa til þess fjárhagslegt svigrúm geta líka valið að taka lengra fæðingarorlof. Það er auðvitað það sem við höfum séð í auknum mæli, konur taka jafnan lengra orlof en greiðslurnar segja til um og deila þeim niður. Sjálf tók ég sem dæmi árs fæðingarorlof þegar ég eignaðist mitt annað barn. Þegar þriðja barnið fæddist ákvað ég að segja upp starfi mínu og verða heimavinnandi húsmóðir. Það var mitt val og fjölskyldunnar. Þá þáði ég auðvitað bara greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í samræmi við þau réttindi sem uppi voru þá. Eins og ég segi hef ég litið á þetta fyrst og fremst sem gríðarlega jákvæðan og góðan hvata, (Forseti hringir.) þ.e. fæðingarorlofið og okkar kerfi þar að lútandi.