151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[22:34]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef kannski ekki lesið allar athugasemdir sem komu við þetta í samráðsgáttinni, en ég skoðaði dálítið af umsögnum um þetta mál síðast og þekki þessi viðhorf ágætlega. Mér finnst nú ekki eiga að tala um þetta þannig eins og hér sé verið að setja inn einhverjar ægilega stífar kröfur sem verði á kostnað móður og barns. Það er verið að lengja þetta. Verið er að bjóða upp á að móðirin geti fengið sjö mánuði í staðinn fyrir hámark sex mánuði, eins og þetta var. Er það ekki eitthvað til að gleðjast yfir? Það er alla vega minna að varast í þessu, minni hættur en áður voru. Menn hefðu kannski átt að taka dýpra í árinni með kerfið eins og það var áður, að skammast meira út í það en minna út í þetta, hefði ég sagt. Auðvitað eru fleiri element í þessu en barnið, jafn mikilvægt og miðlægt og það er, og fleira en foreldrar á vinnumarkaði. Ég nálgast þetta mál ekki nema að litlu leyti sem vinnumarkaðsmál, eins og ég held að ég hafi sagt a.m.k. þrisvar í ræðu minni. Þetta er jafnréttismál í miklu stærra samhengi og spilar miklu meira inn í og ekkert síður heimilin og sameiginlega ábyrgð á heimilishaldi og umönnun barna þar en að þetta tengist stöðu kynjanna úti á vinnumarkaðnum, þótt það skipti vissulega miklu máli.

Þannig að nei, því miður, hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, ég er ekki tilbúinn til að veita mikinn afslátt af mínum sjónarmiðum í þessu. Ég ætla bara að vera mjög róttækur í þessu máli, róttækur, femínískur í minni nálgun og líta á þetta sem gríðarlega mikilvægt mál til að treysta áfram forsendur jafnréttisþróunar í landinu af því að sú barátta stendur áfram yfir og er ekki í höfn á nokkurn hátt.

Ég myndi hafa algeran skilning á því ef menn legðust betur yfir 9. gr. með þessi sjónarmið að leiðarljósi, sem eru auðvitað alveg fullgild, og veltu fyrir sér hvort hægt væri að skilgreina kannski þær tilteknu jaðaraðstæður, þau tilvik, þær félagslegu aðstæður eða eitthvað sem gæti kallað á að rýmka eitthvað heimildir til yfirfærslu á grundvelli undanþáguákvæða í 9. gr.