151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

meðferð einkamála.

100. mál
[23:03]
Horfa

Flm. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P):

Virðulegur forseti. Þetta mál er mikilvægt jafnræðismál og mikilvægt tjáningarfrelsismál. Ég flyt það nú í fjórða sinn, sýnist mér á greinargerðinni, en það miðar að því að veita heimild fyrir áfrýjun í tjáningarfrelsismálum, meiðyrðamálum og þegar kært er fyrir meiðyrði sé málskot til æðra dómstigs alltaf leyft. Þetta kann að hljóma tæknilega, en skiptir virkilega miklu máli þegar kemur að vernd tjáningarfrelsis á Íslandi og þetta skiptir virkilega miklu máli þegar kemur að jafnræði aðila í dómsmáli, sérstaklega í dómsmálum sem varða ærumeiðingar. Hvers vegna? Vegna þess að það gilda ákveðnar reglur um hvenær megi áfrýja málum til æðra dómstigs og hvenær ekki. Það er ákveðin viðmiðunarfjárhæð, ákveðið gólf, sem miðað er við. Ef bótakrafa eða fjárhæð í ákveðnu máli er 1 milljón eða hærra, myndast sjálfkrafa réttur til þess að áfrýja málinu til æðra dómstigs fyrir þann aðila sem tapar málinu, væntanlega líka fyrir þann sem vinnur málið en hann hefur væntanlega ekki hvata til þess að gera það.

Þegar kemur að ærumeiðingarmálum virkar þessi regla samt þannig að hún felur í sér að þeim sem kæra fyrir ærumeiðingar, oft eru það fjársterkir aðilar sem kæra litla sjálfstæða fjölmiðla, er kleift að áfrýja, tapi þeir ærumeiðingarmáli gagnvart þessum litla sjálfstæða fjölmiðli, en hún meinar þessum sjálfstæða fjölmiðli að sækja rétt sinn sé hann sakfelldur. Hvernig virkar þetta? Jú, ef einhver ákveður að kæra fjölmiðil fyrir ærumeiðingar og skaðabótakrafan er sett á kannski 1–2 milljónir, auðvitað milljón af því að viðkomandi vill geta áfrýjað til æðra dómstigs skyldi hann tapa þessu máli, sem hann ætti augljóslega að gera þegar tjáningarfrelsið er í húfi, alla jafna. En tapi fjölmiðillinn málinu eru bæturnar sem eru dæmdar langt undir milljón. Það breytir því ekki að kostnaður málsaðila er örugglega kominn vel yfir milljón bara fyrir að hafa rekið þetta mál fyrir dómi. Viðkomandi hefur tapað meiðyrðamáli sem felur auðvitað í sér mikilsverða hagsmuni fyrir þann aðila, sérstaklega ef um sjálfstæðan lítinn fjölmiðil er að ræða, sem lenti kannski í því að fjársterkur aðili var einfaldlega bara að hefna sín fyrir að þessi sjálfstæði miðill hafði upplýst um eitthvað sem hinum fjársterka aðila var svona frekar illa við að hefði verið upplýst. Það geta því verið mikilsverðir hagsmunir fyrir þann sem tapar dómsmáli á lægra dómstigi, í héraðsdómi, að geta skotið ákvörðuninni til æðra dómstigs, til Landsréttar í þessu tilfelli.

Eins og staðan er núna er þetta ójafn leikur, það er ójafnvægi á milli málsaðila. Það felst í því að ef sá sem stefnir þessum sjálfstæða aðila, eða manneskju sem tjáði sig með einhverjum hætti, tapar málinu getur sá hinn sami alltaf áfrýjað vegna þess að hann gerir kröfu um milljón eða meira. En tapi þessi sjálfstæði aðili meiðyrðamáli þá getur hann ekki endilega áfrýjað vegna þess að bæturnar sem hann er látinn greiða eru kannski 300.000 kr. eða 500.000 kr., alla vega ekki milljón. Það þýðir að hann fær ekki sama rétt og sá sem upphaflega kærði til að áfrýja málinu.

Það er, virðulegi forseti, grundvallarregla í réttarfari að jafnræði skuli ríkja á milli aðila í dómsmáli. Eins og staðan er í þessum málum akkúrat núna þá ríkir bara ekki fullkomið jafnræði á milli aðila í dómsmálum þegar kemur að tjáningarfrelsi. Þegar kemur að tjáningarfrelsinu er mikilvægt fyrir okkur löggjafann að gera eins vel og við getum í að vernda og tryggja að það sé ekki auðvelt að misnota lög, það sé ekki auðvelt að notfæra sér löggjöf til að ná sér niðri á fólki sem er að nýta tjáningarfrelsi sitt, eða til að hefna sín þannig að það kosti fjölmiðla fúlgur fjár að sinna sínu mikilvæga lýðræðislega aðhaldshlutverki. Þó að þetta mál, virðulegi forseti, kunni að hljóma tæknilegt, það feli einungis í sér eina efnislega grein, er það gríðarlega mikilvægt fyrir eflingu tjáningarfrelsis á Íslandi.

Eins og ég segi þá er ég ekki að mæla fyrir þessu máli í fyrsta sinn. Aldrei kemst það lengra en inn í nefnd eins og fer fyrir svo mörgum góðum málum stjórnarandstöðunnar, því miður, en það má alltaf reyna aftur. Ég vonast til að sannfæra fleiri þingmenn í þetta sinn. Það er kannski svolítið borin von klukkan tíu mínútur yfir ellefu á þriðjudagskvöldi og þetta fáir eftir í salnum og vafalaust fáir eftir til að hlusta. En ég mun nú ekki láta það stoppa mig í að banka í nokkra hv. þingmenn, og auðvitað alla allsherjar- og menntamálanefnd, hvar ég á sæti, til að ýta þessu mikilvæga máli áfram. Betur má ef duga skal. Kannski náum við því í þetta sinn að efla og styrkja tjáningarfrelsið og auka jafnræði á milli aðila í dómsmálum. Þetta er mikilvægt réttlætismál og er mikilvægt tjáningarfrelsismál.

Ég legg til að frumvarpið fari til allsherjar- og menntamálanefndar og til 2. umr.