151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

undirritun og fullgilding þriðju valfrjálsu bókunarinnar við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

102. mál
[23:18]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Það eru tveir stórir mannréttindasáttmálar í gildi hér á landi, sem hafa verið fullgiltir, þar sem íslenskur almenningur hefur ekki aðgengi að sjálfstæðum eftirlitsstofnunum til þess að leita réttar síns, til að leita ráða hjá. Það er annars vegar vernd um réttindi barnsins og hins vegar nefnd um réttindi fatlaðs fólks. Nú getum við spurt okkur hvort þetta séu ekki þeir einstaklingar sem einna helst þurfa á því að halda að geta leitað til sjálfstæðs aðila með réttindavernd sína og réttindabaráttu utan landsteinanna. Við hljótum því að spyrja okkur hvers vegna við flytjum þetta mál ár eftir ár og náum ekki árangri í að koma á samþykkt á fullgildingu þessarar valfrjálsu bókunar sem myndi efla réttarvernd barna á Íslandi. Er það vegna þess að okkur líkar ekki að einhverjir sérfræðingar að sunnan, eins og þeir eru stundum kallaðir, nema núna meinum við sérfræðinga að utan, hafi einhverjar skoðanir á því hvernig við tryggjum réttindi barna á Íslandi eða hafi einhverjar skoðanir á því hvernig við tryggjum réttindi fatlaðs fólks á Íslandi? Hvers vegna meinum við þessum viðkvæmu hópum, sem eru að berjast fyrir réttindum á Íslandi sem og um allan heim, um aðgang að auknu réttlæti? Er það vegna þess að okkur finnst óþægilegt að láta skoða hvernig hlutir eru í raun og veru á Íslandi? Ekki með einhverjum almennum úttektum um hvernig hlutirnir eru og hvernig þeir mættu kannski betur fara heldur með raunverulegum persónulegum dæmum og frásögnum fólks og raunverulegum og skýrum niðurstöðum frá alþjóðlegum nefndum sem eru sérhæfðar í réttindavernd þessara hópa gagnvart einstaka málum. Einstök börn fá einstaka málsmeðferð fyrir einstaka mál.

Það er gríðarlega mikilvægt að geta sem einstaklingur leitað réttar síns á grundvelli mannréttindasáttmála sem Ísland er búið að lögfesta, búið að fullgilda. Við getum ekki sagt að við höfum fullkomnað þá réttarvernd sem felst í þessum sáttmálum nema við samþykkjum þessa viðauka og gerum þeim einstaklingum á Íslandi kleift að leita réttar síns líka út fyrir landsteinanna. Við getum ekki sagt að réttarverndin sé orðin fullkomin gagnvart þessum samningum fyrr en við gerum það.

Rétt eins og hv. flutningsmaður þessarar tillögu kom inn á, hv. þm. Björn Leví Gunnarsson, þá auðvitað skýtur það skökku við að Ísland eigi fulltrúa í barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna en að íslensk börn geti ekki leitað til þessarar nefndar með réttarúrlausn sína og réttindamál. Það er í lagi fyrir okkur að vera með fínan sendifulltrúa erlendis en guð forði okkur frá því að börnin okkar geti leitað til þessarar fínu nefndar. Hvað segir það okkur um stöðu réttindabaráttu barna á Íslandi að ár eftir ár þurfi að leggja þessa tillögu fram, ár eftir ár sé það einmitt síðla kvölds, þegar enginn er á staðnum, sem málið ratar hljóðlega inn í nefnd og deyr þar drottni sínum?

Það er ekki áhugi á því að efla réttarvernd barna á Íslandi að þessu leyti en það er allt í fína lagi að senda mann til útlanda til að vinna í fínni nefnd hjá Sameinuðu þjóðunum. Mér þykir mikilvægara að íslensk börn geti leitað til þessarar nefndar frekar en að við eigum þar fulltrúa, satt best að segja. Í því ljósi vil ég hvetja hv. utanríkismálanefnd, sem ég tel að muni taka á þessu máli, til að klára málið einu sinni og koma því til 2. umr.