151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

336. mál
[15:22]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framlagningu þessa frumvarps. Það er tímabært. Þetta er gott skref en það er of stutt, of stuttur áfangi í sjálfsagða réttlætisátt. Þetta er gríðarlegt hagsmunamál fyrir fólk sem býr á landsbyggðinni, hvort sem það er í þéttbýli úti á landsbyggðinni eða í dreifbýli. Við tölum mikið um jöfnun lífskjara í öllu landinu og það segir réttilega í greinargerð með frumvarpinu að háir taxtar á dreifikostnaði í dreifbýli stuðli í auknum mæli að fólksfækkun, samdrætti í atvinnurekstri og tilheyrandi neikvæðum byggðarlegum áhrifum. Það er allt satt og rétt. Það er náttúrlega fráleitt að munur á raforkukostnaði í þéttbýli og víða á landsbyggðinni, eða þar sem grófust eru dæmin, sé upp undir 60% þegar upp er staðið. Fjölskylda í dreifbýli getur t.d. látið loga hjá sér ljósið í eldhúsinu fram yfir kvöldmat í skammdeginu á meðan í þéttbýlinu er hægt að láta loga ljós fram yfir miðnætti fyrir sama pening. Er eitthvert vit í þessu og hvaða réttlæti er í því? Hvaða skilaboð eru það til landsmanna sem búa vítt og breitt um landið?

Rafmagn er eitt af grunnatriðum í lífi hvers manns. Án þess lifum við ekki, hvar sem við búum. Ríkisstjórnin hefur látið þetta gott heita allt kjörtímabilið en bregst við á elleftu stundu. En það er gott, betra er seint en ekki. En ég skil það sem svo af orðum ráðherra að nú verði munur á raforkukostnaði heimila í dreifbýli ekki meiri en 15%. Og hvenær áætlar ráðherra að fullum jöfnuði verði náð? Hún hafði einhver fá orð um það. (Forseti hringir.) Síðast en ekki síst: Hafa áform Landsnets um 10% taxtahækkun (Forseti hringir.) um áramót einhver áhrif á þessi áform ráðherra, eins og hún tæpti raunar svolítið á?