151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

336. mál
[15:30]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög áhugaverðar spurningar og vildi að ég hefði meira en tvær mínútur til að eiga frekara samtal um þetta. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni. Ég hef margoft sagt að helsti ágalli á raforkukerfinu eins og það er í dag sé þessi munur. Þetta er einfaldlega ósanngjarnt. Auðvitað væri gott ef áformin 2015 hefðu skilað sér eins og þau áttu að gera, að milljarðurinn þá hefði dugað eins og hann átti að gera. Áformin voru þá að við næðum fullri jöfnun. Það gekk ekki eftir og þess vegna erum við að bregðast við með þessum blandaða hætti nú, að setja nýjar 600 milljónir á fjárlög og svo hækka þetta með tilliti til verðlags, sem skilar 13% hækkun.

Hv. þingmaður spurði um mögulegar sameiningar. Deloitte ætlar að hjálpa okkur í þeirri vinnu, að finna hvaða ávinningur og hvaða gallar eru á því að sameina dreifiveitur. Það sama á við um þessar hugsanlegu skipulagsbreytingar. Ég get því ekki sagt hvaða hagræðing fælist í því enda held ég að það færi líka mjög eftir því hvers konar sameiningar það væru, hvaða dreifiveitur, hvar þær væru með höfuðstöðvar sínar, hvar starfsmenn væru og hvernig allur þessi kostnaður yrði til, þessi yfirbygging og þessi fasti kostnaður. Svo væri mögulega hægt með einhverjum kerfisbreytingum að ná líka fram frekari hagræðingu. Önnur lögmál gilda þegar við erum að tala um dreifiveitur, til að ég nefni það aftur í samhengi við ýmislegt annað, vegna þess að um er að ræða sérleyfisskylda starfsemi. Þar ríkir engin samkeppni þannig að menn geta ekki keppt á samkeppnisgrunni og náð fram hagræðingu með þeim hætti. Þess vegna er þessu stýrt svona og sú stýring og sá rammi sem við höfum byggt er til endurskoðunar.

Mér finnst mjög mikilvægt að við séum opin fyrir því að leita allra leiða til að tryggja að við rekum þessi kerfi með sem hagkvæmustum hætti og stundum er regluverkið einfaldlega fyrir okkur í því. Þetta er samspil af því hvernig regluverkið er uppbyggt, tekjumörkin o.s.frv., en auðvitað líka hvernig við beitum eignarhaldi sem er alla jafna hjá hinu opinbera og sömuleiðis að dreifiveiturnar eru fimm talsins.