151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

fjáraukalög 2020.

337. mál
[16:03]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Það er nóg að spyrja um hérna. En einbeitum okkur að fáum atriðum á stuttum tíma. Á málefnasviði 27 er verið að millifæra yfir á endurhæfingarlífeyri um 2 milljarða kr., frá því sem var í örorkulífeyri. Mig langar til að spyrja ráðherra hvernig þetta er ófyrirséð, 2 milljarðar í aukin útgjöld í endurhæfingarlífeyri, eða, eins og hæstv. ráðherra sagði í framsögu sinni „aukna áherslu á endurhæfingu“, sem ég get tekið undir. Það sem mér finnst hins vegar áhugavert, undir öllum skilgreiningum og túlkunum á þessu, er hvernig stefnubreyting án umsagna eða aðkomu þings fellur að lögum um opinber fjármál.