151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

fjáraukalög 2020.

337. mál
[16:06]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get alveg tekið undir það að þetta eru 2 milljarðar í aukin útgjöld á þessu málefnasviði. Ekki er það allt Covid-endurhæfing sem kostar það. Þessi upphæð bendir til þess að það sé eitthvað annað en aukin sókn í þetta eða eitthvað svoleiðis, við vorum búin að glíma við það áður. Eins og hæstv. ráðherra sagði í framsöguræðu sinni er þetta aukin áhersla á endurhæfingu sem mér finnst alveg góðra gjalda verð, en er, eins og ég segi, stefnubreyting án umsagna eða aðkomu þingsins.

Hitt sem mig langar til að spyrja um er varðandi endurútreikning á launaforsendum fjárlaga 2019 og 2020 vegna sjúkrahúsþjónustu. Núna er Landspítalinn að glíma við halla upp á ansi marga milljarða, sem m.a. hefur verið sagt að sé vegna vanreiknings á því hversu mikið kjarasamningar hafa kostað Landspítalann. Mig langar til þess að spyrja hæstv. ráðherra: Er það rétt að kostnaður vegna kjarasamninga hafi verið vanáætlaður?