151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

fjáraukalög 2020.

337. mál
[16:09]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi í fyrra andsvari, sem er nú stutt tímalega séð, aðeins koma inn á hagvöxt, atvinnuleysi og spá Seðlabankans í þeim efnum og áhrifin á tekjuáætlun ríkissjóðs. Var uppfærð spá Seðlabankans, sem er þó nokkuð dekkri en Hagstofunnar, höfð til hliðsjónar í uppfærðri tekjuáætlun, endurspeglar hún dekkri horfur samkvæmt spá Seðlabankans? Auk þess vildi ég aðeins koma inn á það áhyggjuefni að spá Seðlabankans um atvinnuleysi á næsta ári gangi eftir. Er þá hætt við því, hæstv. fjármálaráðherra, að við fáum stórar tölur í næsta fjárauka, 2021, vegna vanmats á útgjöldum til atvinnuleysisbóta?

Svo alveg í blálokin: Hvernig sér hæstv. fjármálaráðherra fyrir sér að fjármagna þennan halla á ríkissjóði sem eykst dag frá degi og ekki síst með þeim pakka sem felst í þessum fjárauka? Hvernig ætla menn að komast út úr þessu (Forseti hringir.) þegar þarf að fara að borga allar skuldir? Vissulega eru mikilvæg verkefni undir. Ef hæstv. ráðherra gæti farið aðeins yfir það.