151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

fjáraukalög 2020.

337. mál
[16:17]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra svörin, en mér finnst þau svolítið rýr vegna þess að auðvitað er Covid-19 ófyrirséð og auðvitað er Covid-19 að bíta þennan hóp. Matvörur hafa hækkað um 10% og ýmislegt annað og það segir sig sjálft að það er eiginlega óskiljanlegt að fjármálaráðherra skuli segja að þetta séu ekki óvænt útgjöld hjá þessum einstaklingum, sem þau eru. Það eru margir illa staddir nú þegar, þeir sem eru á strípuðum bótum og ég tala nú ekki um þá sem eru á 90% bótum og voru áður með búsetuskerðingar. Þetta fólk er í mjög slæmum málum og allur aukakostnaður, vegna matar og annars út af Covid bítur þetta fólk illa og ég segi fyrir mitt leyti að í þessum fjárauka ætti að vera eitthvað fyrir það. Annars erum við bara að skilja þennan hóp eftir og segja við hann: Þið verðið bara að herða sultarólina og þið fáið ekkert vegna Covid en við ætlum að hjálpa öllum öðrum í sambandi við Covid.