151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

fjáraukalög 2020.

337. mál
[16:56]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Eins og komið hefur fram erum við að ræða hér fimmta fjáraukann á þessu ári. Þetta eru náttúrlega alveg fordæmalausar aðstæður sem ríkissjóður hefur þurft að takast á við, og þjóðin öll, vegna veirufaraldursins. Stór hluti af þessum fjárauka, sem er upp á eina 65 milljarða kr., fer í það greiða atvinnuleysisbætur en atvinnuleysi er því miður í hæstum hæðum. Ég vil hvetja alla þá til dáða sem glíma við þá meinsemd í erfiðum aðstæðum. Það mun vonandi birta til á nýju ári og við vonum að það verði sem fyrst.

Það er líka rétt að leggja áherslu á að það er úrræði hjá Vinnumálastofnun sem hægt er að nýta sérstaklega af hálfu atvinnurekanda, að ráða til sín fólk sem er á atvinnuleysisskrá og fá þannig styrk með hverjum starfsmanni. Ég vil hvetja atvinnurekendur hér og nú til þess að nýta sér þetta úrræði því að það er svo sannarlega mikilvægt að hafa eitthvað fyrir stafni. Þó að dregið sé úr starfshlutfalli eða öðru slíku skiptir allt slíkt máli. Menn upplifa meiri tilgang með því að geta sótt vinnu á hverjum degi.

Ég vil taka sérstaklega fram að það sem mér finnst vanta í þetta fjáraukalagafrumvarp er að komið sé til móts við eldri borgara. Ég sé ekkert um það, hvorki hér né í fjárlagafrumvarpinu, og ég á eftir að ræða það nánar þegar við förum í 2. umr. um fjárlagafrumvarpið. Ég sakna þess svo sannarlega að eldri borgarar skuli ekki fá neinar sérstakar greiðslur vegna t.d. Covid. Öryrkjar hafa fengið sérstakar greiðslur og það er ágætt. En það er líka þarna úti hópur eldra fólks og nokkur þúsund manns sem eru á strípuðum bótum, eins og sagt er, og er í erfiðum aðstæðum. Það er svo sannarlega mikilvægt að mæta þeim hópi einnig og við í Miðflokknum höfum lagt sérstaklega áherslu á það í málflutningi okkar og munum gera það í tillögugerð okkar þegar fjárlög verða afgreidd.

Nefndarmenn í fjárlaganefnd fengu minnisblað frá fjármála- og efnahagsráðherra þar sem eru þau fjáraukalög sem hafa verið lögð fyrir á þessu ári og þess getið að rekja megi nær alfarið þær útgjaldabreytingar sem þar koma fram til heimsfaraldursins. Það er þó þannig að u.þ.b. 9,9 milljarðar í þessum fjárauka tengjast ekki heimsfaraldrinum. Þar er m.a. útgjaldahækkun vegna lífeyrisskuldbindinga um 5,5 milljarða, sem er í sjálfu sér ekki endilega skynsamlegt vegna þess að þar liggja fyrir ófjármagnaðar skuldbindingar upp á háar fjárhæðir sem verður að taka á.

Ég vildi koma aðeins inn á eitt í þessu minnisblaði sem vakti sérstaklega athygli mína og það er það sem rætt er um kynjaða fjárlagagerð. Þar segir að útgjöldin hafi verið metin út frá því hvort þau væru til þess fallin að styðja við jafnrétti, viðhalda óbreyttu ástandi á stöðu kynjanna eða auka kynjamisrétti eða kynjabil. Flestar aðgerðirnar eru taldar viðhalda óbreyttu ástandi eða styðja við jafnrétti. Jafnframt segir að langstærsti hluti ráðstafananna sem lagt var mat á séu taldar viðhalda óbreyttu ástandi og stöðu kynjanna, en þær nema um 65% af heildarfjárhæð frumvarpsins. Sérstaklega er nefndur aukinn kostnaður vegna fjölgunar nemenda á framhalds- og háskólastigi. Nú er það þannig að konur eru í meiri hluta þeirra sem sækja í háskólanám og þá spyr maður sig: Hallar þá ekki á karlmenn í þessari kynjuðu fjárlagagerð, vegna þess að þeim hefur fækkað í námi? Ég er ekki alls kostar viss um það, herra forseti, að þessi fullyrðing í minnisblaði hæstv. fjármálaráðherra sé rétt, að frumvarpið hafi ekki áhrif á kynjaða fjárlagagerð. Ég held einmitt að það sé á þann veginn að það halli á karlmenn hvað þetta varðar.

Síðan er mjög athyglisverður kafli í minnisblaðinu þar sem segir að tvær aðgerðir séu líklegar til að auka kynjabil í frumvarpinu. Það er lenging tekjutengingar atvinnuleysisbóta og umhverfissamningur við framleiðendur í minkarækt. Vita menn yfir höfuð hvað það eru mörg minkabú á landinu og hvað þar starfa margir karlmenn? Stuðningur við framleiðendur í minkabúum er sjálfsagt styrkur til fámenns hóps og karlmenn væntanlega í meiri hluta. En það er verið að bera þetta saman við nemendur í háskóla sem hefur fjölgað um rúmlega 1.800. Ég verð að segja að mér finnst þessi málflutningur fáránlegur, að örfá minkabú með fáum karlmönnum í vinnu setji kynjaða fjárlagagerð á hliðina og auki kynjabil. Ég er mjög hissa á því að hæstv. fjármálaráðherra skuli setja nafn sitt við við þennan texta yfir höfuð.

Á bls. 12 í glærukynningu sem nefndarmenn í fjárlaganefnd fengu er rætt um sjálfvirka sveiflujafnara í ríkisfjármálunum og að þeir hafi fengið að virka óheftir í formi minni skattheimtu og aukinna útgjalda vegna atvinnuleysis. Þeir leiða til 117 milljarða kr. afkomulækkunar sem eru u.þ.b. 4,1% af vergri landsframleiðslu. Það er nú einu sinni þannig að ekki er öllum ljóst hverjir þessir sjálfvirku sveiflujafnarar eru. Þess vegna væri mjög gagnlegt að skipta þessari upphæð betur niður til betri skýringa, eins og hverjir þessir skattar eru sem þarna er um rætt.

Ég vil víkja einnig að öðru mikilvægu máli sem lýtur að halla ríkissjóðs. Hann eykst náttúrlega enn frekar með tilkomu þessa frumvarps, verði það að lögum. Vissulega eru þarna atriði sem skipta verulegu máli, t.d. atvinnuleysisbæturnar, og útgjöldin óumflýjanleg, en við verðum líka að ræða í þessu samhengi hvernig eigi að fjármagna þennan halla. Hvernig ætlar ríkissjóður að fjármagna hann? Ég hjó eftir því nýlega að í fjölmiðlum var einmitt verið að ræða við lífeyrissjóðina um þessi mál og þá kom fram að þeim hugnaðist ekki að lána ríkissjóði á lágum vöxtum. Það er því nauðsynlegt að fara í umræðu um hvernig eigi að fjármagna þann mikla halla sem er orðinn á ríkissjóði og eykst dag frá degi.

Í fjáraukalögum verða útgjöld að vera ófyrirsjáanleg og óvænt. Það er meginstefið þegar fjáraukalagafrumvörp eru lögð fram. Ég vil taka sem dæmi um það að ekki er verið að fara að lögum hvað þetta varðar í þessu frumvarpi. Það er t.d. fjallað um heimildir til að kaupa eignir og rætt um að kaupa húsnæði í Mývatnssveit fyrir Vatnajökulsþjóðgarð og það séu viðræður í gangi. En þetta mál á ekki heima í fjárauka, ég held það sé alveg ljóst. Það er ekkert ófyrirséð eða óvænt við þetta mál. Þetta er liður sem á að vera í fjárlögum. Við höfum margoft, á hverju einasta ári, tekið þá umræðu hér að það er verið að lauma inn í fjáraukann málum, fjárheimildum, útgjöldum sem eiga ekki heima þar. Það eru þó nokkur dæmi um slíkt í þessu frumvarpi og ég mun koma nánar inn á það eftir.

Það vantar líka gagnsæið í þetta, það vantar að gerð sé grein fyrir hlutunum með miklu betri og markvissari hætti. Það er t.d. 20 millj. kr. fjárveiting til forsætisráðuneytisins vegna kostnaðar vegna Covid og engin grein gerð fyrir því í hverju sá kostnaður felst. Það er rætt um ráðningu starfsmanns vegna formennsku í Evrópuráðinu 2022–2023 og síðan önnur sérverkefni sem tengjast því. Þetta er fjárbeiðni sem á heima í fjárlagafrumvarpinu. Það er ekkert óvænt eða ófyrirséð í þeim útgjöldum. Menn vissu nákvæmlega hvenær við værum að taka að okkur formennskuna og það á ekki að vera með slíka þætti í fjáraukalagafrumvarpinu.

Á bls. 67 í frumvarpinu er rætt um kostnað Landspítalans – háskólasjúkrahúss vegna Covid-19 og segir að hann geri það að verkum að ekki sé talið svigrúm til að greiða útistandandi kostnað, en gert er ráð fyrir kostnaði sem stofnanir áttu að taka þátt í vegna greiðslu á samningum við Microsoft. Því hefur verið lýst yfir af ríkisstjórninni að spítalinn fái allan Covid-kostnað endurgreiddan en það verður ekki séð að sú röksemd eigi við, að spítalinn eigi að fá þetta sérstaklega greitt. Það er verið að flýta þessum samningi, innleiðingunni, vegna Covid, og þá spyr maður: Þarf þá ekki að lækka fjárveitingu sem tengist þessum Microsoft-samningi á næsta ári og þar næsta, því að það er ekki þörf fyrir hana? Það ætti þá að koma fram og ætti að koma fram í fjármálaáætlun. Það eru svona hlutir sem eru ekki nógu skýrir og þyrfti að standa miklu betur að.

Síðan er hérna til viðbótar óskaði eftir 260 millj. kr. hækkun á greiðsluheimild til að mæta greiðsluhalla vegna uppgjörs við stofnanir. Þessa beiðni þarf að skýra betur því að greiðsluhallinn á samkvæmt lögum um opinber fjármál að flytjast yfir á næsta ár. Ef þetta er ekki Covid-mál á ekki að setja þetta fram á þennan hátt.

Ég minntist áðan sérstaklega á einn útgjaldalið í fjárlagafrumvarpinu í andsvari við hæstv. fjármálaráðherra en það er fjallað um hann á bls. 70 í frumvarpinu. Það er kaflinn um útlendingamál. Þar er verið að óska eftir 412 millj. kr. hækkun til málaflokksins og þar eru einungis 19 milljónir vegna Covid. Þetta er mjög sérstakt vegna þess að umsóknum um alþjóðlega vernd hefur fækkað á þessu ári. Menn vita að eðlilegar ástæður eru fyrir því. Flugsamgöngur hafa legið að stórum hluta niðri í marga mánuði. En samt þarf að hækka þessar greiðslur um næstum því hálfan milljarð. Maður spyr sig hver útgjöldin verða þá þegar landið opnar algerlega á ný. Ég held að menn verði að fara yfir þetta og ég fagna því að hæstv. fjármálaráðherra sagði að það yrði að fara að taka á þessu. Mér finnst ríkisstjórnin bara vera allt of svifasein í því. Það eru orðnar allt of háar upphæðir sem fara í þennan málaflokk, allt of lengi verið að afgreiða umsóknir o.s.frv. Það er engum til gagns, hvorki þeim sem sækja um alþjóðlega vernd né þeim sem greiða fyrir þá alþjóðlegu vernd, sem er ríkissjóður.

Það eru fleiri þættir sem mætti koma inn á og ég vildi nefna sérstaklega það sem ég kom einnig inn á í andsvari varðandi hagspá Seðlabankans. Hún er mjög mikilvæg, bæði hvað varðar atvinnuleysi og hagvöxt, og hún er dekkri en spá Hagstofunnar. Það er nauðsynlegt að fá fram hvort ekki sé eðlilegt að uppfæra tekjuáætlunina vegna þessarar spár þar sem hún endurspeglar dekkri horfur. Það er ljóst að svo getur farið að við munum sjá stærri tölur hvað varðar atvinnuleysið. Við sjáum að meginþorri þeirra fjárheimilda sem er í þessu frumvarpi er til kominn vegna aukins atvinnuleysis, þannig að það er mjög mikilvægt að menn hafi þessar spár að leiðarljósi þegar þeir uppfæra tekjuáætlun ríkissjóðs. Hún er að sjálfsögðu áhyggjuefni, þessi spá sem Seðlabankinn hefur sett fram um að atvinnuleysi verði yfir 8% árið 2021. Það hefur náttúrlega veruleg áhrif á tekjuhluta ríkissjóðs og útgjaldahliðina líka vegna greiðslu atvinnuleysisbóta.

Það er ýmislegt sem hefði mátt betur fara í þessu, herra forseti, að mínu viti. Það er fleira sem ég hefði viljað koma inn á en þetta er aðeins 1. umr og þótt tíminn sé ekki nægilegur gefst ráðrúm seinna til þess að fara nánar yfir alla þá þætti sem eru mjög mikilvægir í þessu öllu saman.

Svo spyr maður líka hvort þær aðgerðir sem er verið að leggja til, t.d. viðspyrnustyrkirnir sem við ræddum í dag, séu að skila tilætluðum árangri. Það er það sem skiptir öllu máli í þessum aðgerðapökkum sem við erum að leggja hér fram og kosta milljarða króna, að þeir skili árangri. Því miður er umsóknarferlið um þessa styrki í mörgum tilfellum afar flókið. Fyrirtæki hefur sótt um styrki sem það hefur talið sig (Forseti hringir.) eiga rétt á og síðan hefur komið í ljós að það átti ekki rétt á þeim og fyrirtækið þurft að endurgreiða það með tilheyrandi erfiðleikum og óhagræði. (Forseti hringir.)

Það er ýmislegt í þessu sem við þurfum að bæta en vonandi færi nefndin (Forseti hringir.) að koma að þessu máli öllu í heild sinni og þar með líka við sem erum í stjórnarandstöðu. Því miður hefur ekki verið hlustað nægjanlega á ráðleggingar okkar í þeim efnum en ég vona að það verði breyting á því.