151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

fjáraukalög 2020.

337. mál
[17:35]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Forseti. Ég ætla ekki að hafa mál mitt mjög langt. Mig langar til að bregðast aðeins við þeirri umræðu sem fram hefur komið undir þessum dagskrárlið í dag. Ríkisstjórnin hefur talað mikið um að rauði þráðurinn í stjórnarsáttmálanum sé nýsköpun. Ég hjó eftir því í ræðu hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að hann fullyrti það að Íslands væri samkeppnishæft hvað varðar það að fá hingað til lands erlend kvikmyndagerðarverkefni.

Nú er staðan sú að endurgreiðslukerfið er staðsett í 25%. Kvikmyndagerð er í eðli sínu nýsköpun. Í maí lögðu íslenskir kvikmyndaframleiðendur það til við iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið að endurgreiðsla vegna kvikmyndagerðar myndi hækka tímabundið úr 25% í 35% vegna Covid-19. Endurgreiðslukerfið í kvikmyndagerð hefur reynst vel síðustu árin og áratugina. Kerfisfyrirkomulagið samanstendur af sérstakri nefnd sem fjallar um innkomnar umsóknir. Við afgreiðslu skal nefndin hafa að leiðarljósi að kvikmynd eða sjónvarpsefni stuðli að eflingu innlendrar menningar eftir atvikum með skírskotun til sögu lands og náttúru. Í skýringu á því hvernig nefndin starfar stendur að telji nefndin að umsögn fullnægi skilyrðum til þess að hljóta endurgreiðslu geri hún tillögu til atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra um að veitt verði vilyrði fyrir endurgreiðslu. Ráðherra ákvarðar endurgreiðslu að fenginni tillögu nefndarinnar.

Reyndir aðilar úr bransanum hérlendis fullyrða að þessi áðurnefnda hækkun úr 25% í 35% á endurgreiðslum fyrir kvikmyndagerð myndi flýta fyrir ákvörðunum erlendra framleiðenda um að koma hingað til lands með verkefni. Það er hörð samkeppni í kvikmyndageiranum á alþjóðavettvangi og oft má litlu muna þegar verið er að semja eða reyna að bjóða í verkefni um það hvert þau svo fara. Ísland verður að vera framarlega í þeirri samkeppni. Eins og staðan er núna er Ísland ekki framarlega. Til að mynda er Írland með svipað fyrirkomulag á endurgreiðslukerfinu og Ísland. Hins vegar eru þeirra endurgreiðslur staðsettar á bilinu 32–37%, eftir því hvar kvikmyndatakan fer fram á landinu. Það eru ákveðnir hvatar þar, það er hærri endurgreiðsla ef kvikmyndatakan fer fram á stöðum þar sem innviðirnir þarfnast meiri slíkrar starfsemi og innspýtingar.

Áður en Covid skall á var stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar ferðaþjónustan. Þetta hefur verið gífurlegt högg og fjöldauppsagnir hafa fylgt í kjölfarið. Þegar um erlenda kvikmyndagerð er að ræða koma hingað til lands stórir hópar fólks sem nýta sér þá innviði ferðaþjónustunnar sem við búum yfir á þessu landi. Fólk nýtir sér hótelgistingu, bílaleigur, veitingastaði og ýmiss konar innlenda þjónustu og afþreyingu. Kvikmyndagerðariðnaðurinn hefur því alla burði til þess að leika stórt hlutverk í því að styðja við ferðaþjónustuna og hefði getað, og gæti enn, brúað bilið þar til greinin fær uppreist æru að þessari Covid-martröð lokinni. Önnur lönd hika ekki við að fara þessa leið. Á Kanaríeyjum t.d., sem eru eldfjallaeyjar eins og Ísland, ákváðu stjórnvöld að fara bara strax í þá aðgerð að hækka endurgreiðslu og hækkuðu hana í 50%. Þar var staðan svipuð og hér, einn stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar þurrkaðist út vegna Covid og þá var farið strax í aðgerðir, almennilegar aðgerðir, áður en aðrir gátu fylgt á eftir. Svona fyrirhyggju og stefnuforystu vantar gríðarlega í aðgerðum ríkisstjórnarinnar hvað varðar atvinnuskapandi aðgerðir tengdar Covid. Þetta liggur líka svo beint við. Við erum með innviðina og þetta er önnur leið til þess að fá hingað til lands erlenda aðila sem bæta fjármunum inn í þjóðarbúið.

Nú er það svo að Kanaríeyjar njóta rosalega góðs af þessari hugrökku aðgerð. Svo góðs að við erum jafnvel að missa íslenskan mannauð þangað út. Íslenskt kvikmyndagerðarfólk er að flytjast búferlum til Kanaríeyja vegna þess að þar eru spennandi hlutir að gerast, þar er dýnamík, þar eru störf að skapast, þar er skilningur á því að þessi atvinnugrein, kvikmyndagerðariðnaðurinn og tónlistariðnaðurinn, sem er beintengdur, skapar störf, skapar þjóðhagsleg verðmæti.

Þetta er ótrúlega sorglegt, forseti. Þetta lá fyrir og það er óskiljanlegt hvers vegna menn draga lappirnar hvað þetta varðar. Ekki er einu sinni verið að fara fram á hækkun upp í 50% hérlendis heldur er sett fram mjög hógvær krafa um að fara upp í 35%.

Hæstv. fjármálaráðherra lýsti því yfir áðan að hann væri ekki viss hvar línan lægi upp á það að gera Ísland samkeppnishæft. Þá er því til svara, út frá samtölum mínum við fólk innan umrædds geira, að línan liggur einmitt þar sem krafan liggur, um að endurgreiðslan fari úr 25% í 35%, einfaldlega vegna þess að þau lönd sem liggja landfræðilega nálægt Íslandi bjóða upp á slíkar endurgreiðsluprósentur. Á Írlandi t.d., eins og ég minnist á áðan, er ódýrara að setja upp framleiðslu, bara af því að það er ódýrara land, það er ódýrara að kaupa inn á settið, ódýrara að standa í þessu. Ísland er dýrara land. Ef þetta er lagt saman, að Írland er bæði með hærri endurgreiðsluprósentur og það er ódýrara að vera þar, þá er alveg hægt að ímynda sér hvað framleiðendur velja, hvert þeir ákveða að fara með stóra framleiðslu. Það er því af og frá að halda því fram að Ísland sé samkeppnishæft í því að fá erlend kvikmyndagerðarverkefni hingað til lands eins og staðan er núna með 25% endurgreiðslu.

Skotland er annað gott dæmi. Nýlega fór eins og eldur um sinu á Netflix kvikmyndin Eurovision. Jafnvel atriði sem gerðist samkvæmt söguþræðinum á Íslandi varð að skjóta í Skotlandi hreinlega vegna þess vandamáls sem ég er að tala um hér. Það var ódýrara að skjóta íslenska senu með íslensku landslagi í Skotlandi.

Aftur: Fjölmörg störf myndu skapast við þá einföldu aðgerð að hækka endurgreiðsluprósentuna til kvikmyndagerðar og eins til tónlistargeirans. Þetta er iðnaður sem kallar eftir fjölbreyttum hæfileikum og fjölbreyttri þekkingu. Það er nánast hægt að tengja flesta geira inn í þá framleiðslu, inn í svona listaverkasköpun. Eins vitum við fyrir víst að kvikmyndataka hérlendis er rosalega öflug leið til að markaðssetja landið á jákvæðan hátt án þess að við þurfum að leggja í beinan kostnað. Í kringum 40% ferðamanna segjast koma hingað til lands vegna þess að þau sáu landið í sjónvarpsþætti eða kvikmynd eða kvikmynduðu efni. Íslensk náttúra er einstök á heimsmælikvarða og það er fyrirséð að aðsókn í óspillta náttúru Íslands kemur til með að aukast á næstunni til að mynda vegna loftslagsbreytinga. Þess vegna eigum við að koma okkur almennilega á kortið í þessum spennandi iðnaði.

Markviss uppbygging og langtímahugsun í fótboltaíþróttinni hérlendis hefur nú margfalt skilað sér fyrir þjóðina síðustu misseri, eins og þegar Ísland sigraði enska karlalandsliðið í fótbolta í Evrópukeppninni 2016.

Ég minntist áðan á tónlistariðnaðinn. Síðastliðinn janúar varð þjóðin vitni að stórsigri Íslendings á erlendri grundu þegar Hildur Guðnadóttir tónskáld sópaði til sín öllum virtustu verðlaunum kvikmyndageirans fyrir kvikmyndatónlistina sem hún samdi fyrir stórmyndina Joker.

Herra forseti. Við sjáum hversu tengdar allar þessar greinar eru; ferðaþjónustan, kvikmyndagerð, tónlistargerð eða hljóðupptaka og landið okkar, landið sjálft. Núna þurfum við viðlíka langtímahugsun í samhengi við þessa geira eins og við höfum séð í fótboltaheiminum. Þetta er verðmætaskapandi útflutningsgrein og það liggur svo beint við að byggja upp kvikmyndaiðnað á Íslandi og njóta góðs af sem þjóð.

Hérna í lokin ætla ég að nefna nokkur dæmi um kvikmyndir sem hafa verið teknar upp að hluta til hérlendis. Eins og áður segir gerist það ótt og títt að Ísland fær 5% eða 10% verkefni í stað þess að fá heildarverkefnið sem skiptir milljörðum, vegna áðurnefndra atriða. Þá missum við af.

Myndir og þættir sem hafa verið teknir upp hér: Brot, Foundation, Eurovision, Blind Spot, Star Trek, The Last Planet, Game of Thrones, Black Mirror, Transformers, Star Wars, Everest, Fast and the Furious og fleiri. Við sjáum af þessum lista að þetta eru engin smá tækifæri sem eru þarna til staðar. Það eru líka tækifæri hvað varðar menntun og menntageirann og það að þjálfa fólk upp. List er líka rannsóknarvinna.

Ísland er samkeppnishæft og við stöndum frammi fyrir því vandamáli að hæstv. ríkisstjórn telur að Ísland sé það. Þetta gengur ekki upp ef við ætlum raunverulega að geta notið góðs af þeim möguleikum sem við höfum í hendi. Það er hálft ár, eins og áður sagði, síðan kvikmyndaframleiðendur báðu um þess hógværu hækkun. Þetta er ekki kostnaður beint úr ríkiskassanum bara einn, tveir og þrír. Þetta er háð skilyrðum, það þarf að uppfylla skilyrði nefndarinnar, og kemur eftir á, eftir að búið er að koma með peninginn inn í landið, eftir að fjármagnið hefur flætt um samfélagið. Þá er endurgreitt og aðeins að hluta til. Og eitt leiðir af öðru, þetta byggir hvert annað upp, eitt verkefni spyrst út.

Ég skil hreinlega ekki á hverju strandar. Ef það strandar á pólitíkinni set ég mjög mikið út á það vegna þess að þetta er þjóðhagsmál fyrir okkur öll. Við erum í krísu. Það eru fjöldauppsagnir hérna og atvinnuleysi. Þetta má ekki vera eitthvert pólitískt bitbein, eins og við erum allt of vön með ýmis málefni innan þings sem utan. Þetta er þjóðhagsmál sem þarf að ráðast í strax. Hæstv. ríkisstjórn hefur sýnt áhuga, hefur sýnt viðleitni og segist ætla að gera eitthvað í þessum málum en þá bið ég um, forseti, að hún geri það strax.