151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

almannatryggingar.

91. mál
[18:07]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Hér erum við mætt aftur, félagarnir í Flokki fólksins. Hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson er með mér á þessu frumvarpi. Eins og í gær fáum við greinilega að eiga þingsalinn fyrir okkur. Ég vildi óska þess að við fengjum að ráða eins miklu því að þá þyrftum við ekki að mæla fyrir þessu máli vegna þess að það væri engin fátækt. Að vísu eru einhverjir að hrópa hérna í hliðarherbergjunum. Ég sé ekki hverjir það eru en það kemur vonandi í ljós. Ég er viss um að þeir ætli í andsvar eða eitthvað því að þeim finnst við svo skemmtileg.

Hvað um það, virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir mjög svo sanngjörnu litlu máli. Í stóra samhenginu, miðað við allt sem hér er rætt um í milljörðum og hundruðum milljarða króna þá er þetta einfalt sanngirnismál sem felur í sér að við 2. mgr. 53. gr. laganna um almannatryggingar bætist við svohljóðandi setning: „Tryggingastofnun skal greiða allan kostnað sem hlýst af framkvæmd greiðslna.“ Og í 2. gr. segir að lögin öðlist þegar gildi.

Frumvarp þetta var áður lagt fram á 149. löggjafarþingi og á 150. löggjafarþingi, þannig að eins og þið sjáið erum við ekki alveg af baki dottin og gefumst ekki upp þrátt fyrir að þingheimur, a.m.k. meiri hluti hans, sé ekki sammála okkur hvað lýtur að því að rétta þeim sem helst þurfa hjálparhönd. Því miður er það svo. Oftar en ekki býst maður við að það sé vegna þess að þeir hinir sömu hafi sennilega ekki þurft að hokra mikið í gegnum tíðina. En ég get nú svo sem ekki alhæft um það.

En hvað um það. Málið er nú lagt fram óbreytt. Sífellt algengara er að lífeyrisþegar flytjist til útlanda. Í þeim tilvikum fá þeir gjarnan greiðslur frá Tryggingastofnun inn á erlenda reikninga sína. Slíkum fjármunafærslum milli landa fylgir talsvert meiri kostnaður en hefðbundinni millifærslu innan lands. Lífeyrisþegar sem búsettir eru erlendis bera þann kostnað sjálfir sem þessum greiðslum fylgir og verða fyrir skerðingu á réttindum á grundvelli búsetu sinnar. Enn ein búsetuskerðingin. Þetta er athyglisvert kerfi. Það er þó gott að við Guðmundur Ingi og Flokkur fólksins skulum ítrekað vekja athygli á því, ekki veitir af. Og vonandi mun þessi söngur verða til þess að það verði einhvern tímann tekið alvarlega á því að stokka kerfið upp og gera það þannig að einhver skilji það.

Við skulum bara hafa það á hreinu að það eru um 3.000 kr. sem almannatryggingaþegi þarf að blæða fyrir hverja millifærslu. Þegar er búið að skerða hann ef hann vogar sér að flýja land vegna þess að flestir, a.m.k. þeir sem ég þekki til og hafa flutt til landa þar sem er ódýrara að lifa, ódýrara að borða, ódýrara að búa, ódýrara húsnæði, eru þá að reyna að lifa af því sem að þeim er rétt héðan, úr fæðingarlandi sínu, landinu sínu, vegna þess að þeir eiga fárra annarra kosta völ nema þá að sitja eftir eins og hinir með helminginn af mánuðinum þannig að þeir ná ekki endum saman og bætast í röðina til að biðja um mataraðstoð. Þess vegna veltir maður fyrir sér: Hvernig í veröldinni stendur á því að þessir einstaklingar, þessir almannatryggingaþegar fá ekki að sitja við sama borð og aðrir? Við skulum átta okkur á því að Tryggingastofnun er risastór aðili í samningssambandinu og gæti sannarlega samið um lægri kostnað við bankann. Það er þekkt að sá stóri hefur betri samningsstöðu en sá litli, við vitum það.

Þetta er í rauninni ekkert annað en réttlætis- og sanngirnismál. Ég hefði sennilega ekki haft hugmynd um þetta þegar ég mælti fyrir þessu máli fyrst á 149. löggjafarþingi nema vegna þess að gömul kona hafði samband við mig. Hún býr erlendis og er búin að gera það um tíma. Hún var algjörlega miður sín. Við verðum að átta okkur á því að 36.000 kr. á ári er stór biti fyrir þann sem lítið sem ekkert hefur. En það er voðalega erfitt fyrir milljónamæringa að átta sig á því. Þeim finnast þetta nú vera hálfgerðar baunir og skilja ekkert í svona væli yfir því sem þeim finnst nánast lítið sem ekki neitt. En hver hundraðkall telur, hver fimmhundruðkall, hver þúsundkall. Hver þúsundkall er 1.000 kr. virði, virkilega, fyrir þann sem á ekki neitt.

Þess vegna segi ég að stjórnvöldum er í lófa lagið að hætta að mismuna þegnunum og reyna að koma til móts við þá eins og kostur er. Í raun og veru gæti maður ímyndað sér og vonað núna á síðasta vetri þessarar ríkisstjórnar, af því að það er alltaf tilhneiging til þess að hanga í stólunum sem fastast, að þeir horfi til þessara 65.000 einstaklinga sem eru undir almannatryggingakerfinu, eldri borgarar og öryrkjar, og svo við bætum nú við þeim 106.000 launþegum sem eru undir iðnaðar … eitthvað. Nei. Hvað heitir þetta samband nú aftur? Æ, fyrirgefið. Ég man ekki hvað það heitir núna. Maður er orðinn sextugur og orðinn kolruglaður í öllu þessu. En það breytir ekki þeirri staðreynd að við erum með láglaunafólk, fólk sem ber lítið meira úr býtum en almannatryggingaþegar, lítið meira. Við erum núna komin með 25.000 atvinnulausa. Maður veltir fyrir sér: Ætli það séu 25.000 atvinnulausir, bara út af því að — það er ekki rétt að segja bara, en ætli það tengist allt saman ferðamannaiðnaðinum? Eða skyldi eitthvað vera vegna þess að aðrar greinar hafa verið skikkaðir til að loka og jafnvel skella í lás í þessum andstyggðar Covid-faraldri? Það er svo hins vegar spurning sem við eigum eftir að fá svarað. Við eigum væntanlega eftir að fá sviðsmyndir af því. En ég ætla ekki að vera eyða tímanum, ég vil helst að við Guðmundur Ingi reynum að klára að koma frá okkur málunum okkar núna áður en þinginu lýkur hér innan skamms, þannig að klukkutímaræða um þetta réttlætismál er ekki á dagskrá hjá mér núna.