151. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2020.

kjaramál flugvirkja Landhelgisgæslu Íslands.

351. mál
[15:35]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi um kjaramál flugvirkja Landhelgisgæslu Íslands. Tilefni frumvarpsins er að flugvirkjar Landhelgisgæslunnar hafa verið í verkfalli frá 6. nóvember 2020 með þeim afleiðingum að nú er engin starfhæf þyrla eða flugvél til taks hjá Landhelgisgæslu Íslands. Það er neyðarástand sem varðar bæði sjófarendur og almenning. Í gær, 26. nóvember, var gerð lokatilraun til að semja við Flugvirkjafélag Íslands án árangurs. Auk þess hafnaði félagið sáttatillögu ríkissáttasemjara. Markmiðið með lagasetningu þessari er, vegna þess neyðarástands sem upp er komið, að binda enda á vinnustöðvun flugvirkja Landhelgisgæslunnar og vísa kjaradeilunni í gerðardóm.

Með erindi, dagsettu 18. nóvember síðastliðinn, upplýsti Landhelgisgæsla Íslands mig um yfirvofandi neyðarástand hjá stofnuninni að því er varðar björgunarviðbragðsgetu. Í erindinu kom fram að verkfallsaðgerðir flugvirkja kæmu í veg fyrir að Landhelgisgæslan gæti haldið úti nauðsynlegri öryggis- og björgunarþjónustu og það stefndi í að öll loftför stofnunarinnar yrðu óstarfhæf innan fárra daga, í síðasta lagi miðvikudaginn 25. nóvember, en jafnvel fyrr ef óvæntar bilanir kæmu upp.

Nú er sú staða komin upp að hvorki þyrlan né flugvél er til taks í landinu, sem er grafalvarlegt mál, einkum fyrir sjófarendur þegar engar aðrar bjargir eru nálægar á hafi úti. Landhelgisgæslan hefur þrátt fyrir verkfall reynt að tryggja lágmarksneyðarþjónustu og gert allt sem í hennar valdi stendur til að halda þyrlunni TF-GRO í flughæfu ástandi. Verkefnum og æfingum hefur verið frestað til að unnt sé að bregðast við neyðartilfellum, en ljóst er að slíkt ástand getur ekki varað lengi. Þann 19. nóvember hafði vegna verkfallsins engin viðhaldsvinna farið fram í tæpar tvær vikur á þyrlunum tveimur TF-EIR og TF-LÍF, auk þess sem verkfallið kemur til með að seinka innleiðingu á leiguþyrlunni nýju, TF-GNÁ, sem væntanleg er í janúar. Þá hefur verkfallið sömuleiðis haft áhrif á verkefni eftirlitsflugvélar Landhelgisgæslunnar og getur hún því hvorki sinnt löggæsluhlutverki sínu né framfylgt alþjóðlegum skuldbindingum gagnvart Landamæra- og strandgæslustofnun Evrópusambandsins, Frontex.

Virðulegi forseti. Sáttatilraunir í málinu hafa engan árangur borið og engin lausn er í sjónmáli eftir að flugvirkjar höfnuðu sáttatillögu ríkissáttasemjara í gær. Brýnt er að bregðast við til að binda enda á það neyðarástand sem upp er komið. Kjaradeilan varðar, sem fyrr segir, almannahagsmuni og almannaöryggi.

Í frumvarpi þessu er kveðið á um friðarskyldu milli deiluaðila og bann við vinnustöðvunum, verkfalli eða öðrum aðgerðum sem ætlað er að knýja fram aðra skipan kjaramála en lögin kveða á um frá því að frumvarpið tekur gildi. Lögin koma þó ekki í veg fyrir að aðilar geti gert með sér kjarasamning án aðkomu gerðardóms.

Samningsaðilum sem frumvarpið nær til er veittur frestur til 4. janúar 2021 til að ljúka samningum sín á milli. Takist það ekki skal skipaður gerðardómur sem skeri úr um kjaramál þeirra félagsmanna sem aðild eiga að Flugvirkjafélagi Íslands. Skal gerðardómur ljúka störfum fyrir 17. febrúar 2021, hafi aðilar ekki gert með sér kjarasamning fyrir þann tíma.

Í frumvarpinu eru sett fram viðmið sem gerðardómur skal taka mið af við ákvörðun sína, eins og nánar er rakið í skýringum við 3. gr. frumvarpsins. Að auki er í frumvarpi þessu ákvæði þess efnis að komi deiluaðilar sér saman um einhver efnisatriði í deilunni skuli gerðardómur taka mið af því við ákvörðun sína innan þess ramma sem frumvarpið setur. Þá er og ákvæði um að gerðardómi sé heimilt að beita sér fyrir sátt milli aðila sem hafi sömu réttaráhrif og ákvarðanir hans, hvort sem er um einstök ákvæði eða heildarsamning þeirra í milli að ræða og taki gerðardómur þá ekki ákvörðun um atriði sem sáttin taki til innan þess ramma sem frumvarpið setur.

Í 1. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um rétt manna til að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, þar með talin stéttarfélög. Þá segir í 2. mgr. 75. gr. að í lögum skuli kveða á um rétt manna til að semja um starfskjör sín og önnur réttindi tengd vinnu. Þessi ákvæði ber að skýra í ljósi alþjóðasamninga sem Ísland hefur fullgilt. Þar ber helst að nefna mannréttindasáttmála Evrópu, sem lögfestur var hér á landi með lögum nr. 62/1994, en félagafrelsið er tryggt í 11. gr. hans.

Þótt stjórnarskráin og mannréttindasáttmálinn tryggi verkfallsréttinn ekki berum orðum hafa Hæstiréttur og Mannréttindadómstóll Evrópu talið að hann njóti að einhverju marki verndar á grundvelli túlkunar viðkomandi ákvæða. Í því tilviki sem hér um ræðir verður þó að telja að þær kröfur sem ákvæði stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmálans setja fyrir því að skerða megi verkfallsréttinn séu fyrir hendi. Þau þrjú meginskilyrði sem þurfa almennt að vera til staðar eru þessi: Í fyrsta lagi að skerðing verður að byggjast á lögum. Í öðru lagi að lagasetning þurfi að vera í þágu almannahagsmuna eða réttinda annarra. Í þriðja lagi að hún verði að vera nauðsynleg til að þeirra hagsmuna og réttinda sé gætt og má ekki ganga lengra en þörf krefur til að ná því markmiði sem að er stefnt. Þessi skilyrði eru uppfyllt í því tilviki sem nú er uppi, eins og nánar er rakið í greinargerðinni með frumvarpinu og mun ég ekki fara ítarlega yfir þau í ræðu minni.

Hæstv. forseti. Ég ber mikla virðingu fyrir Landhelgisgæslunni, mikilvægi hennar í að tryggja öryggi almennings og ekki síst virðingu fyrir starfsmönnum hennar og skipum og loftförum, sem leggja sig gjarnan í mikla hættu við leit og björgun á landi og á hafi úti. Það er rétt að hafa í huga að allar þær stéttir sem eru í áhöfnum skipa og í loftförum Gæslunnar hafa ekki verkfallsrétt með vísan til almannahagsmuna. Þetta á hins vegar ekki við um þá flugvirkja sem ekki eru í áhöfnum, en þeir gegna þó lykilhlutverki í því að halda loftförunum starfhæfum. Ég tel ekki rétt að ein stétt geti með þessum hætti lamað starfsemi Gæslunnar líkt og nú hefur verið gert og ógnað þannig öryggi landsmanna.

Ég vil því að lokum nefna og leggja sérstaklega áherslu á að verkfallsbann það sem hér er lagt til er í þágu almannaheilla og þjóðaröryggis og til verndar heilsu og öryggi landsmanna og sjófarenda. Telja verður brýna nauðsyn á því að setja þessi lög strax til að binda enda á það neyðarástand sem nú er uppi og tryggja að Landhelgisgæslan geti sinnt sínum lögbundnu hlutverkum. Lagt er til að frumvarpið öðlist þegar gildi.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins og legg til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.