151. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2020.

kjaramál flugvirkja Landhelgisgæslu Íslands.

351. mál
[15:43]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi það sem hv. þingmaður kemur inn á um stöðuna í dag, þá eru tveir dagar fyrirsjáanlegir, í gær og í dag a.m.k., sem við höfum ekki þyrlu. En við höfum tryggt með ýmsum öðrum hætti öryggi landsmanna; með báðum skipunum, með sambandi við einkaaðila sem eiga þyrlur o.fl., til að geta tryggt með besta móti öryggi landsmanna á þessum tímum.

Varðandi það hvort ég hafi talað sérstaklega beint við flugvirkja eða Félag flugvirkja þá hef ég ekki gert það. Ég hef fylgst með í gegnum samninganefnd ríkisins, enda á ég ekki beina aðild að kjarasamningaviðræðum og hef ekki beina aðkomu að kjaraviðræðum. Ég tel óeðlilegt að hafa bein afskipti af þeim en hef fengið góðar upplýsingar og fylgst náið með stöðu mála í deilunni fram að þessu. Skylda mín sem ráðherra er að tryggja öryggi landsmanna, tryggja öryggi Landhelgisgæslunnar og ég hef fengið nákvæmar upplýsingar á hverjum degi síðan ég fékk þetta erindi frá Landhelgisgæslunni um kjaraviðræðurnar, sem eru á hendi samninganefndar ríkisins.