151. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2020.

kjaramál flugvirkja Landhelgisgæslu Íslands.

351. mál
[15:46]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, við stöndum hér í dag með lagasetningu einmitt til að tryggja öryggi landsmanna í lengstu lög enda eru mestu áhyggjur Gæslunnar af fleiri, fleiri dögum í kringum mánaðamót desember/janúar ef þyrlurnar tvær verða ekki til taks. Það voru stærstu áhyggjur Landhelgisgæslunnar í samtali við mig. Það vantar tveggja vikna viðhaldsþörf á þyrlunni númer tvö, TF-EIR, og það þarf að tryggja að ekki komi til aftur þetta gat í starfsemi þyrlnanna sem eru björgunarþyrlur hér á landi. Við erum að tryggja það hér með lagasetningu þar sem gætt var meðalhófs og ekki gripið inn í á meðan það var samtal. Það var samtal þangað til í gær á milli samningsaðila og það eru flugvirkjar sem eru í viðræðum við samninganefnd ríkisins. Hún annast viðræður við flugvirkja og hefur fullt umboð og ástæðulaust að grípa fram fyrir hendurnar á henni fyrr en kjaraviðræðurnar sigldu í strand. Það er ekkert annað í stöðunni en að tryggja öryggi almennings með því að setja stopp á þetta verkfall.