151. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2020.

kjaramál flugvirkja Landhelgisgæslu Íslands.

351. mál
[15:47]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er alvarleg staða sem við stöndum frammi fyrir og þess vegna skiptir máli að við fullvissum okkur um að öll nauðsynleg skilyrði séu uppfyllt til að réttlæta lagasetningu á verkfall.

Mig langar að spyrja ráðherrann um hvað hafi verið gert til að tryggja starfsemi Landhelgisgæslunnar þrátt fyrir verkfallið. Fram hefur komið í fréttum að beiðnum um undanþágu vegna flugvirkjanna hafi verið hafnað. Þetta er kerfi sem við höfum í vinnudeilum sem virkar alveg ágætlega. Í verkfalli eru sendar beiðnir til undanþágunefndar og ef hún skilar ekki jákvæðri niðurstöðu er hægt að skjóta niðurstöðunni til Félagsdóms og við þessar aðstæður er ekkert ósennilegt að slík niðurstaða gæti skilað sér eftir tvo, þrjá daga, kannski sólarhring ef vel gengur.

Nú er þetta verkfall búið að standa í þrjár vikur þannig að mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki hafi verið látið reyna á það að fara til Félagsdóms með undanþágubeiðnirnar frekar en að ganga skrefið til fulls og koma með frumvarp á deiluna.

Það leiðir reyndar hugann að því af hverju þurfi yfir höfuð undanþágubeiðnir fyrir stétt sem ráðherrann segir að sé nauðsynleg til að viðhalda rekstri kjarnastarfsemi Landhelgisgæslunnar, vegna þess að þar eigum við líka kerfi, við eigum skrá yfir þau störf hjá stofnunum ríkisins sem eru undanþegin verkfallsheimild. Landhelgisgæslan skráir 52 störf þar. Þar eru t.d. aðstoðarmenn flugvirkja. Fjórir slíkir eru undanþegnir verkfallsrétti. Af hverju í ósköpunum eru ekki flugvirkjarnir sjálfir á þessum lista ef þeir eru svona lífsnauðsynlegir fyrir viðhald Landhelgisgæslunnar? Hver ber ábyrgð á þeirri handvömm að flugvirkjar séu ekki á þeim lista?