151. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2020.

kjaramál flugvirkja Landhelgisgæslu Íslands.

351. mál
[15:49]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður, það er mikið búið að reyna á undanþágur og þeim hefur verið hafnað. Það var mikið reynt að koma í veg fyrir að öryggisbrestir yrðu á starfsemi Gæslunnar með því að fresta æfingum o.fl., eins og ég rakti hér í ræðu. En í lögum um Landhelgisgæsluna er kveðið á um það hvaða starfsmenn þeirra hafi verkfallsrétt og það eru þeir sem fara með löggæslustörf, þar með taldir þeir sem eru um borð í þyrlunum en ekki þeir flugvirkjar sem starfa hjá Gæslunni á landi. Það er ekki á mína ábyrgð. Það er ekki hægt að segja að ég beri ábyrgð á verkfallsréttinum. Það gerir Alþingi. Þetta eru lög frá 2006 sem þarf að mínu mati að endurskoða eftir að við sáum þessa bresti koma upp. Það er algerlega skýrt markmið þeirra laga að verkfallsréttur eigi aldrei að koma í veg fyrir öryggis- og björgunargetu Landhelgisgæslunnar. En það er nákvæmlega það sem er að gerast og það er þess vegna sem ég er hér mætt, til að stöðva áhrif þessa verkfalls sem augljóslega hefur þau áhrif sem verkfallsrétturinn átti aldrei að hafa á öryggi landsmanna.