151. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2020.

kjaramál flugvirkja Landhelgisgæslu Íslands.

351. mál
[15:50]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef dálitlar áhyggjur af því að ráðherra virðist ekki hafa skilið spurninguna. Skrá um þau störf hjá stofnunum ríkisins sem eru undanþegin verkfalli kemur ekki til þingsins, hún er samin uppi í Stjórnarráði, og þar eru t.d. lagerstjóri og launafulltrúi Landhelgisgæslunnar sem eru væntanlega ekki taldir upp í lögum um Gæsluna heldur undanþegnir verkfallsrétti í skjali sem ráðherrar bera ábyrgð á. Hvernig stendur á því að flugvirkjar koma ekki fyrir þar? Og svo kom ekki skýrt svar við því hvort höfnun á beiðnum um undanþágu hafi verið skotið til Félagsdóms til að fá þar endanlega niðurstöðu.

Og af því að ég á smá tíma aflögu: Hvað hefur ríkisstjórnin gert til að kalla eftir aðstoð frá Dönum? Það kemur fram í máli Gæslunnar að þyrluskiptasamningur hennar við dönsku varðskipin snúist bara um að geta kallað til þyrlur ef þær eru á svæðinu. Ef varðskipin eru ekki á svæðinu þurfi að fara ofar í goggunarröðina. Þá klagar upp á ríkisstjórnina (Forseti hringir.) að banka upp á hjá Dönum og biðja um þyrlur. Hefur það ekki verið gert, til að tryggja öryggi Íslendinga?