151. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2020.

kjaramál flugvirkja Landhelgisgæslu Íslands.

351. mál
[15:56]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nýjar þyrlur þurfa vissulega líka viðhald en eftir því sem ég best veit hefðum við ekki þurft að kaupa þyrlur sem þurfa jafn mikið viðhald og þær sem við erum að leigja akkúrat núna. Hæstv. ráðherra getur ekki komið hingað upp og sagt: Við berum ekki ábyrgð á því að ekki séu þrjár þyrlur tiltækar. Það breytir engu. Við erum ekki með neina þyrlu akkúrat núna og höfum enga þyrlu fram á sunnudag. Hvað segir sú staða okkur? Hefði það engu breytt að við hefðum aðra þyrlu? Hefði það engu breytt að Landhelgisgæslan hefði meira fjármagn en svo að hún þurfi að leigja út flugvélina sína til að afla sér tekna fyrir lögbundinni þjónustu? Hefði það engu breytt um viðhorf flugvirkja að vera ekki undir sífelldu álagi, sífelldri streitu og sífellt undir því álagi að þurfa að votta og gera við þyrlur sem þurfa miklu meira viðhald en ríkisstjórnin er tilbúin að borga fyrir? Svo værum við mögulega með þriðja skipið ef ríkisstjórnin væri búin að reiða út eins og 200 milljónir til að halda því gangandi. Er ábyrgð ríkisstjórnarinnar á þessu ástandi (Forseti hringir.) virkilega engin? Er það það sem er verið að segja okkur, daginn sem á að setja lög á (Forseti hringir.) verkfall flugvirkja?