151. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2020.

kjaramál flugvirkja Landhelgisgæslu Íslands.

351. mál
[15:57]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Staðan er sú að við höfum heldur betur gefið í varðandi stöðu Landhelgisgæslunnar og ég held að hún hafi sjaldan verið jafn vel búin og nú, eða eins og hún verður um næstu áramót. Það breytir því þó ekki að hversu vel sem við erum búin tækjum og tólum þá getum við ekki haft flugvirkja í verkfalli ef við ætlum að hafa þau tæki og tól gangandi. Það er verkefnið sem við stöndum frammi fyrir. Þegar flugvirkjar fara í verkfall þá fellur viðhaldsvinnan niður sem flugvirkjar þurfa að sinna, sama hversu ný tækin og tólin eru. Við verðum með þrjár frekar nýjar þyrlur um áramótin, fullbúnar, sem þurfa samt alltaf á þeirri mikilvægu þjónustu að halda sem flugvirkjar sinna hjá Landhelgisgæslunni. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður er að tala fyrir því að flugvirkjar eigi bara ekki að hafa verkfallsrétt eða hvort þeir eigi einmitt að hafa hann og nýta hann svo þetta ástand geti skapast. (Gripið fram í.) Það myndi ekki skipta máli hver staðan væri (Forseti hringir.) á þessum þyrlum sem hv. þingmanni er tíðrætt um þegar kemur að því hvort flugvirkjar (Forseti hringir.) geti verið í verkfalli og haft þannig áhrif á öryggi landsmanna.