151. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2020.

kjaramál flugvirkja Landhelgisgæslu Íslands.

351. mál
[16:10]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Og ég get tekið undir það að það er svartur föstudagur. Það er aldrei gaman að setja lög á verkfall, aldrei. Hv. þingmaður sagði að þeim hefði ekki tekist að gera eðlilegan kjarasamning. Þá velti ég fyrir mér: Hvað er eðlilegur kjarasamningur? Hvað eru eðlileg kjör? Er eðlilegt að flugvirkjar hjá Landhelgisgæslunni séu eina stéttin hjá ríkinu sem hefur beintengingar í kjarasamninga einhvers fyrirtækis úti í bæ? Sjálfri finnst mér það ekki eðlilegt og mér finnst það mjög óeðlileg krafa að fara fram á það á tímum sem þessum þar sem við höfum náð lífskjarasamningum, og ef ég skil málið rétt er búið að bjóða flugvirkjum þær hækkanir, að við hér í þessum sal ætlum að fara að standa með einhverri fámennri stétt sem vill eitthvað annað og allt öðruvísi og meira en boðið hefur verið öðrum starfsmönnum. Virðulegur forseti. Ég spyr hv. þingmann: Hvað er eðlilegur kjarasamningur?