151. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2020.

kjaramál flugvirkja Landhelgisgæslu Íslands.

351. mál
[16:17]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð bara að koma hingað upp og leiðrétta nokkur atriði hjá hv. þingmanni þegar hann er farinn að tala um þyrlur Landhelgisgæslunnar sem einhverja gallagripi. Ég er alveg til í að taka lengri umræðu um flotamál Gæslunnar síðar. Það er bara ekki það sem við erum að ræða í dag. Landhelgisgæslan hefði aldrei tekið þessar þyrlur í notkun nema af því að menn treysta þeim. Og það hefði aldrei verið samþykkt að leigja þyrlur fyrr en flugdeildin væri búin að fullvissa sig um að búið væri að tryggja þær væru öruggar. Þær eru notaðar um allan heim, þær eru samþykktar, þær eru vottaðar, og nýju þyrlurnar, sem við hefðum getað keypt og ætlum okkur að kaupa, hefðu getað verið af sömu tegund. Þetta eru nýjar þyrlur sem Gæslan samþykkti að taka í stað þeirra eldri fyrir sama fé, á góðum samningum, og þær hafa nýst okkur vel. Það verður frábært um áramótin og í byrjun janúar þegar hér er komin þriðja fullbúna þyrlan sem við höfum til að bregðast við, einmitt út af þeirri stöðu sem hv. þingmaður lýsti með fyrri þyrluna sem hér er, sem við vitum að er orðin gömul. En við verðum með þrjár fullbúnar þyrlur hér í byrjun árs og það er sú staða sem við ætlum ekki að tefla í tvísýnu vegna verkfalls flugvirkja. Hv. þingmaður fer líka með rangfærslur um að Landhelgisgæslan sé að betla fé til annarra landa. Þeir eru að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi, Frontex-stofnunarinnar. Og það er þess vegna sem flugvélin er notuð á öðrum stöðum en hér, það er hluti af skuldbindingum okkar við Landamærastofnun Evrópu, Frontex og það er hluti sem Landhelgisgæslan sinnir einmitt til að uppfylla þær skuldbindingar okkar.

Svo er líka rangt hjá hv. þingmanni að það sé mikil starfsmannavelta hjá stofnuninni. Það er einfaldlega rangt.

Við vildum öll sjá samninga. Ég tek undir það með hv. þingmanni. En ég velti fyrir mér: Hversu lengi ætlar hv. þingmaður að bíða?