151. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2020.

kjaramál flugvirkja Landhelgisgæslu Íslands.

351. mál
[16:22]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Landhelgisgæslan hefði aldrei samþykkt þessar þyrlur ef ekki hefði verið búið að tryggja að þær væru í góðu lagi. Þær væru afar góðar til þess verkefnis sem þær sinna hérlendis. Leigusali var með ónotaðar, fullkomnar þyrlur vegna stöðu á olíumarkaði, sem leiddi til þess að við fengum þær á þessu verði. Við eigum að nýta það og hafa hér fullbúnar þrjár þyrlur og tala upp Landhelgisgæsluna sem stofnun, enda sinnir hún afar góðu og brýnu verkefni. En hv. þingmaður svarar ekki spurningu minni um hversu lengi hann ætli að bíða. Hann vill ekki sjá hér lög á verkföll, sem ég skil, það er neyðarúrræði. Við komum ekki fram með það fyrir mánuði síðan þegar þeir fóru í verkfall upphaflega. Það er algjört neyðarúrræði að grípa til þess að setja lög á verkfall. En við gerum það til að tryggja öryggi almennings af því að ef ekki hefði verið verkfall hér síðustu vikur hefði verið búið að sinna viðhaldsþörf á annarri þyrlunni sem hefði nú getað verið starfandi. Lagasetning er ekki fyrsta val, hún er ekki annað val, en hún er staðan sem við stöndum frammi fyrir, en hv. þingmaður telur að sitja eigi lengur við borðið og bíða og leyfa flugvirkjum að halda áfram í verkfalli með þeim langtímaafleiðingum sem það hefur á björgunargetu Landhelgisgæslunnar. Það er í lok desember, frá 14. desember hefði aftur engin þyrla verið tiltæk vegna viðhaldsþarfar. Þá hefðum við ekki getað innleitt þriðju þyrluna í byrjun nýs árs. Verkfall hefði í för með sér frestun á æfingum, og þjálfun starfsmanna ferst fyrir og svo mætti áfram telja. Þar eru langtímaafleiðingarnar sem taka munu tíma næstu mánuði ef ekki verður greitt úr þessu fljótt. Samningar sigldu í strand í gær. Það er bara staðreynd. Hv. þingmaður talar hér eins og ríkið hefði bara átt að bjóða meira, gefa allt eftir. Á meðan Icelandair fékk 10% hagræðingu út úr sínum samningum á ríkið ekki fá neitt.