151. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2020.

kjaramál flugvirkja Landhelgisgæslu Íslands.

351. mál
[16:26]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Það dylst engum mikilvægi Landhelgisgæslunnar og það að þyrlur séu tiltækar þegar á þarf að halda og að það varði öryggi fólks. Það er óumdeilt að afar mikilvægt er að starfsemin komist í eðlilegt horf sem allra fyrst. Sjómenn, björgunarsveitir, fólk sem þarf að ferðast milli landshluta, auk þeirra sem búa á stöðum þar sem með litlum fyrirvara þarf að treysta á þyrlur Gæslunnar, þetta fólk býr við óásættanlegt óöryggi þessa dagana. Það er vond tilfinning að vita af sjómönnum á hafi úti og að engin þyrla sé tiltæk ef hætta steðjar að. Náttúruhamfarir dynja oft yfir með stuttum fyrirvara og slys gera ekki boð á undan sér.

Hæstv. ríkisstjórn vill nú grípa inn í kjaradeilu með því að setja lög á deilu við flugvirkja Landhelgisgæslunni. Sex af 18 flugvirkjum Gæslunnar eru í verkfalli sem hefur staðið frá 5. nóvember, en samningaviðræður hófust í febrúar. Þær hófust fyrir tíu mánuðum síðan. Flugvirkjar hjá Landhelgisgæslu furða sig á því að stjórnvöld hafa ekki haft samband við þá áður en þau samþykktu að setja lög á yfirstandandi verkfall. Það segir Guðmundur Úlfar Jónsson, formaður Flugvirkjafélag Íslands, í samtali við fréttastofu RÚV um málið, og að hæstv. dómsmálaráðherra hafi ekki á nokkru stigi málsins haft samband við félagið. Það er í hæsta máta gagnrýnisvert þegar deilur af þessu tagi eiga sér stað og hæstv. ráðherra lýsir alvöru málsins í fjölmiðlum og jafnvel með auglýsingum á samfélagsmiðlum en lætur undir höfuð leggjast að kynna sér málin frá fyrstu hendi áður en svo alvarleg ákvörðun er tekin að setja lög á vinnudeilur. Það er eitt af mikilvægustu hlutverkum ríkisins á hverjum tíma að tryggja öryggi landsmanna. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur þar lykilhlutverki að gegna.

Nú er engin þyrla tilbúin til að fara í loftið ef kall um það kæmi. Jafnvel þótt samið yrði núna strax eða þetta frumvarp samþykkt í dag yrðu aðeins tvær þyrlur tiltækar í tíu daga í desember. Það liggur því fyrir að áhrifa verkfallsins mun gæta næstu vikur og mánuði.

En hvernig má það vera, forseti, að slík staða sé komin upp á eyjunni Íslandi í Norðurhöfum þar sem þyrlur í viðbragðsstöðu eru svo mikilvægar björgunum á sjó og landi? Hvers vegna erum við í þessari stöðu? Ég fæ ekki betur séð en að hæstv. dómsmálaráðherra hafi sofnað á vakt sinni hvað þetta varðar.

Í þessu máli verður að leggja ríka áherslu á að samningsréttur landsmanna er varinn í 74. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Það sem við þurfum að vega og meta á Alþingi er hvort allt annað hafi verið fullreynt við samningaborðið til að réttlæta að sett séu lög á réttindi manna til að berjast fyrir réttindum sínum og kjörum gagnvart vinnuveitendum sínum. Alþjóðavinnumálastofnunin, ILO, hefur beint til íslenskra stjórnvalda að forðast í lengstu lög að beita slíkum úrræðum. Mjög rík og góð rök og vel undirbyggðar ástæður þurfi að liggja fyrir því ef grípa á inn í og taka samningsréttinn af launamönnum með lagasetningu. Það er á ábyrgð samningsaðila að ná samningum. Ef þeir bregðast því hlutverki hefur ríkissáttasemjari samkvæmt lögum ýmsar leiðir til að knýja á um niðurstöðu. Allar slíkar leiðir þarf að fullreyna áður en inngrip löggjafans geta komið til álita.

Hv. allsherjar- og menntamálanefnd verður að fara vel yfir það fyrir 2. umr. frumvarpsins hvort sýnt sé að samningar muni ekki nást og allar bjargir hafi verið nýttar í þeim efnum. Dómstólar hafa ekki hafnað því að löggjafinn grípi inn í kjaradeilu svo fremi sem ríkir almannahagsmunir séu í húfi eða efnahagsleg vá vofi yfir. Í því sambandi má vísa til dóms Hæstaréttar í máli ASÍ gegn ríkinu, nr. 167/2002, þar sem fram kemur að dómstólar gera ríkar kröfur um skilgreiningu almannahagsmuna og afgerandi rökstuðning til að slík inngrip geti talist réttlætanleg. Víðtæk neikvæð áhrif eru óhjákvæmileg afleiðing verkfalla og verkföllum er beinlínis ætlað að hafa áhrif á samfélagið í því skyni. Launamenn vilja með þeim aðgerðum draga fram í dagsljósið mikilvægi starfa sinn og knýja á um kjarabætur. Lagasetning til að stöðva verkfallsaðgerðir hefur fordæmisgildi og hefur áhrif á vinnumarkaðinn í heild. Það á einnig við þó um fámennar starfsstéttir sé að ræða, líkt og í því tilfelli sem við ræðum nú.

Til að unnt sé að réttlæta lagasetningu þarf að ganga úr skugga um að lengra verði ekki komist við samningaborðið og að miklir almannahagsmunir réttlæti lagasetningu. Einstaklingar hafa frelsi til að stofna með sér stéttarfélög og um leið frelsi til að standa fyrir aðgerðum stéttarfélaga. Þetta eru mannréttindi, félagafrelsið og frelsi til að berjast fyrir rétti sínum. Það getur verið réttmætt að skerða mannréttindi en þá eru rökin þau að nægilega ríkir almannahagsmunir séu fyrir hendi. Þeirri spurningu verður að svara með skýrum hætti áður en frumvarpið gengur til atkvæða. Ekki er nóg að stjórnvöld hagi sér á þann veg við samningaborðið að neyðarástand skapist og það sé næg ástæða til að höggva á hnútinn með því að taka mannréttindi af launamönnum. Skylda þeirra er að ná samningum til að tryggja almannaöryggi, til að tryggja að hér séu þyrlur í góðu lagi til að sinna neyðartilfellum. Ábyrgðin er þeirra.

Verkfallsrétturinn er talinn eitt það mikilvægasta til að styrkja frelsi stéttarfélaga og í mannréttindasáttmálanum segir að hann skuli ekki háður öðrum takmörkunum en þeim sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis, almannaheilla eða efnahagslegrar farsældar þjóðarinnar, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu manna eða siðgæði eða réttindum og frelsi.

Mikil vinna tekur nú við hjá nefndarmönnum í hv. allsherjar- og menntamálanefnd sem nú verður að velta við hverjum steini á föstudagskvöldi og meta hvort beita eigi lagasetningu í þessu erfiða máli.