151. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2020.

kjaramál flugvirkja Landhelgisgæslu Íslands.

351. mál
[16:34]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Dómsmálaráðherra hefur sagt í dag að ekki sé hægt að tefla öryggi almennings og sjófarenda í tvísýnu. Ríkisstjórnin samþykkti af þeirri ástæðu í morgun frumvarp til að stöðva verkfall flugvirkja Landhelgisgæslunnar. Rökin eru að við teflum ekki öryggi almennings og sjófarenda í tvísýnu. Sömuleiðis eru rökin að starfsemin varði almannaöryggi og verði að komast í eðlilegt horf án tafar.

Frú forseti. Ég er þessum orðum dómsmálaráðherra sammála. Þingflokkur Viðreisnar styður þetta mál og af sömu ástæðum. Það eru brýnir almannahagsmunir undir, öryggishagsmunir, líf fólks er undir. Það verður að segjast eins og er að í dag ríkir einfaldlega hættuástand.

Verkfallsrétturinn er mikilvægur. Í honum felast grundvallarréttindi en hann gengur ekki framar lífi og heilsu almennings í landinu. Það þekkja þær stéttir vel sem ekki hafa verkfallsrétt vegna mikilvægis og þýðingu starfa þeirra í þágu almennings í landinu. En rök dómsmálaráðherra um öryggi almennings og þeirra sem eru á sjó úti virka vitaskuld í báðar áttir. Vitaskuld er það alger grunnskylda stjórnvalda að tryggja öryggi almennings, tryggja öryggi þeirra sem eru á sjó. Í þeirri stöðu sem við erum í í dag hlýtur sú spurning að vakna hvort stjórnvöld hafi ekki brugðist þeirri grunnskyldu sinni með því að þessi staða er komin upp í dag og við horfum fram á lagasetningu. Mér finnst svarið við því raunar algjörlega augljóst. Það er ekki bara hlutverk ráðherrans, það er ekki bara hlutverk dómsmálaráðherra að standa hér í dag og bregðast við stöðu sem komin er upp. Pólitísk ábyrgð hennar nær miklu lengra en það. Pólitísk ábyrgð hennar felst í því að verja öryggi landsmanna, að tryggja og verja sjómenn, fólkið í landinu, ekki síst á landsbyggðinni. Ábyrgð hennar er sú að þyrla sé alltaf til taks vegna þessa. Ef eitthvert innihald á að vera í orðum ráðherrans og ríkisstjórnarinnar, hvernig í ósköpunum geta stjórnvöld þá látið þetta gerast? Þessi vandi fékk að vaxa stjórnlaust þannig að staðan í dag, og í nokkra daga að manni heyrist, er að öryggi almennings hefur ekki verið tryggt. Öryggi sjófarenda hefur ekki verið tryggt. Hlýtur ekki að felast mikil og þung pólitísk ábyrgð í því að láta þá stöðu teiknast upp? Þyrlur Landhelgisgæslunnar eru ekki og hafa ekki verið til taks. Það hefur einfaldlega verið okkur til happs að ekkert hefur komið upp á þeim tíma sem liðinn er. Það er heppni. Er það boðleg staða?

Hérna er um algjört grundvallarmál að ræða þar sem mér finnst blasa við að stjórnvöld hafa ekki rækt grunnskyldu sína; að verja öryggi landsmanna. Það stoðar lítið að standa hér í dag og tala um að það sé það sem stjórnvöld eru að gera. Stjórnvöld eru ekki að gera annað í dag, dómsmálaráðherra er ekki að gera annað í dag en að bregðast við vanda sem hefur teiknast upp á hennar eigin vakt og sem er á hennar ábyrgð að koma í veg fyrir að geti orðið. Þetta er staða sem hefur orðið til á vakt ríkisstjórnarinnar og er á ábyrgð dómsmálaráðherra.

Það eru samningaviðræður í gangi við stétt sem hefur svo mikla þýðingu að þegar hún leggur niður störf þá stafar öryggi almennings af því hætta. Hvers vegna er þá ekki ofar á lista stjórnvalda að tryggja lausnina áður en við stöndum frammi fyrir þeirri stöðu sem við erum í í dag? Það er ekki hægt að teikna þetta mál upp með þeim hætti að þeir sem lýsa því yfir að hér hafi stjórnvöld brugðist séu ýmist með eða á móti verkfallsréttinum. Stóra pólitíska álitaefnið er hvort ríkisstjórnin hafi axlað það verkefni sitt að gæta þessara hagsmuna. Hér er verið að leggja fram frumvarp til að slökkva eld sem logar vegna verka eða verkleysis, vanrækslu, stjórnarinnar sjálfrar. Verkfallið hefur staðið í nokkurn tíma og það er vitað, ætti að vera að vitað, að þessi staða getur komið upp og er komin upp. Ráðherra getur í þeim sporum ekki staðið hér og talað sem bjargvættur. Reyndin er því miður önnur.

Forseti. Þetta frumvarp verður að líkindum að lögum á eftir. Að mínu mati þarf það að gerast og þarf að verða því að sú staða sem er uppi er óverjandi. En vegna þeirrar öryggishagsmuna sem eru í húfi mun ég óska þess að dómsmálaráðherra komi fyrir fund allsherjarnefndar á eftir. Ég geri ráð fyrir því að málið fari í þinglega meðferð í allsherjarnefnd. Ég mun óska eftir því að dómsmálaráðherra komi fyrir fund nefndarinnar og svari fyrir þessa stöðu. Þar þarf að ræða hvernig þetta mat dómsmálaráðherra á öryggi fólksins í landinu fer fram. Hvaða sjónarmið voru það sem gerðu að verkum að þessi staða varð niðurstaðan, að þessi vandi var látinn rúlla þetta lengi? Þetta eru brýnar spurningar sem krefjast svara og á þeirri stöðu ber ríkisstjórnin pólitíska ábyrgð. Hún getur ekki bara stigið fram hér og nú og talað um öryggishagsmuni fyrst þegar hún er að setja lögin á verkfallið. Þeir blöstu við langtum fyrr á tímalínunni. Hvers vegna voru þessir brýnu öryggishagsmunir ekki hafðir að leiðarljósi fyrr og komið í veg fyrir þá ótrúlegu stöðu að þyrlur séu ekki flughæfar og hafi ekki verið það í einhverja daga, að manni skilst?

Þetta eru þær spurningar sem ég tel að við þurfum að ræða við meðferð málsins í nefnd á eftir. Við þurfum að horfa á þetta þeim augum að við þeim bráðavanda sem við horfum upp á í dag verði brugðist en verkefnið hljóti samhliða að vera að slíkt geti ekki og megi aldrei endurtaka sig. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)