151. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2020.

kjaramál flugvirkja Landhelgisgæslu Íslands.

351. mál
[16:41]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er mér ljúft og skylt að mæta á fund hv. allsherjar- og menntamálanefndar á eftir og svara fyrir stöðuna, hvort sem það er almennt um stöðu Landhelgisgæslunnar eða um einmitt þá stöðu sem uppi er í dag. Þegar hv. þingmaður segir aftur á móti að þessi lagasetning sé ekki að tryggja öryggi fólks, það sé ekki verið að bregðast við þeirri stöðu sem uppi er nákvæmlega núna, sem komin er upp, þá er það auðvitað alfarið rangt. Mestu áhyggjurnar snúa að langvarandi þyrluleysi frá og með miðjum næsta mánuði og langvarandi æfingaleysi starfsmanna sem og það að geta ekki innleitt það að ný þyrla verði virk í upphafi nýs árs. Við því eru stjórnvöld að bregðast með því að stíga hér inn í á lokastigi af því að deiluaðilar gátu ekki leyst málið.

Það má síðan alveg ræða það hvort dagur til eða frá hefði verið skynsamlegur í stöðunni. Hefði hv. þingmaður sjálfur stigið inn í langtum fyrr þegar samningsaðilar sátu enn við borðið og samtal var enn í gangi? Var þá rétt að beita lagasetningu? Hér held ég að við séum að sýna meðalhóf. Við erum að gæta að meðalhófi við lagasetningu og að grípa inn í deilur aðila þar sem ekki náðust samningar og að tryggja öryggi landsmanna með björgunar- og öryggisflota Landhelgisgæslunnar til lengri tíma. Ég er ekki aðili að samningaviðræðunum. Ég hef fylgst náið með til að tryggja þetta öryggi, sjá fyrir sviðsmyndir, sjá hvaða áhrif þetta hefur til lengri tíma og það er einmitt þess vegna sem mikilvægt er að grípa inn í dag.

Viðræður sigldu í strand í gær þegar reynt var að koma með öllum leiðum til móts við flugvirkja vegna þess hættuástands sem hefur skapast og það skiptir máli í dag, af því að það er stutt í að (Forseti hringir.) aftur gæti komið upp sú staða, til mun fleiri daga og hefði mun meiri langvarandi áhrif, (Forseti hringir.) að björgunarþyrlurnar væru ekki eins virkar og þær eiga að vera.