151. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2020.

kjaramál flugvirkja Landhelgisgæslu Íslands.

351. mál
[16:50]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Verkfallsrétturinn er eitt mikilvægasta vopn launafólks. Okkur löggjafarsamkundunni ber skylda til að standa vörð um hann. En ein helsta skylda stjórnvalda er að tryggja öryggi borgaranna og þetta getur því miður stundum stangast á eins og nú er raunin með verkfall flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni. Verkfallsrétturinn sem verkalýðshreyfingin hefur í gegnum árin og aldirnar komið sér upp með baráttu sinni og tryggt er liður í því kjarasamningsmódeli sem íslenskt samfélag býr við. Þar setjast viðsemjendur niður og reyna að ná samningum til hlítar áður en til verkfalls kemur og, ef því miður þarf að grípa til þess vopns, einnig á eftir. Það hefur því miður ekki tekist í þeirri vinnudeilu sem er andlag þessa frumvarps sem hér liggur fyrir. Viðræður sigldu í strand í gær eftir maraþonfund þar sem von ýmissa, þar með talið ríkissáttasemjara, um að nást myndi saman, brást.

Nú þarf að setja lög á verkfall. Það væri óábyrgt að gera það ekki. Ísland þarf alltaf að hafa björgunarþyrlur til taks og enn frekar á þessum árstíma og í þessu veðurfari. Tillagan sem hér liggur fyrir gerir ráð fyrir því að viðsemjendur hafi áfram tíma til að setjast saman og ná samningum fyrir 4. janúar, annars fari málið fyrir gerðardóm. Ég hvet innilega og einlæglega alla viðsemjendur til að nýta þann tíma sem best.