151. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2020.

kjaramál flugvirkja Landhelgisgæslu Íslands.

351. mál
[17:02]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (U):

Forseti. Hér hefur verið rætt ítarlega og mikið um hið mikilvæga hlutverk Landhelgisgæslunnar, um mikilvægi starfsfólks hennar, um mikilvægi tækjabúnaðar, um mikilvægi þess að við, landsmenn allir, búum við öryggi um að Landhelgisgæslan, tæki hennar og starfsfólk, sé til staðar fyrir okkur öll. Undir þau orð tek ég heils hugar.

Hæstv. dómsmálaráðherra fer mikinn í málflutningi sínum í dag þegar hún talar um öryggissjónarmið. Það gerir hún með því að bera á borð löggjafarsamkomunnar lagasetningu til að stöðva verkfall flugvirkja, flugvirkja sem telja ekki hundruð eða þúsundir heldur eru 18 talsins.

Ég tek undir það sem aðrir þingmenn hafa sagt í þessari umræðu, frú forseti, og tel ekki ástæðu til að endurtaka nema að því leyti að taka undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram í formi spurninga til hæstv. dómsmálaráðherra um hvar þessi öryggissjónarmið hæstv. dómsmálaráðherra hafi verið síðustu síðastliðna tíu mánuði, því að það er tíminn sem samningaviðræður við flugvirkja hafa staðið yfir. Hvar hafa öryggissjónarmiðin verið, sem allt hverfist um í málflutningi hæstv. dómsmálaráðherra nú í dag? Hvar hafa þau verið frá 5. nóvember sl., sem er sá dagur sem 6 af 18 flugvirkjum Landhelgisgæslunnar hófu verkfall? Ég spyr, og kalla eftir forgangsröðun þegar kemur að öryggismálum Landhelgisgæslunnar, forgangsröðun hæstv. ráðherra og ríkisstjórnarinnar allrar. Hvar er sú forgangsröðun búin að vera allan þennan tíma?

Alþjóðavinnumálastofnunin hefur ítrekað ályktað um inngrip ríkisstjórna í verkfallsrétt hinna vinnandi stétta. Hér erum við stödd í dag til að fjalla um frumvarp sem snýst um að setja lög á verkfall flugvirkja og grípa þar með freklega inn í þennan verkfallsrétt, en sá réttur hefur verið stjórnmálafólki og stjórnmálaflokkum afar hugleikinn, líkt og fyrrverandi félagar mínar í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði vita vel. Þó að um sé að ræða stétt sem starfar við umsjón öryggistækja almennings sem eiga ávallt að vera til taks til að tryggja öryggi almennings, þá verður samt sem áður að standa vörð um þau grunnréttindi vinnandi stétta sem verkfallsrétturinn er. Mér þykir dapurlegt ef það verður raunin að sjá mína fyrrverandi félaga í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði samþykkja það umbúðalaust.

Það er líka dapurlegt að sjá ríkisvaldið með hæstv. dómsmálaráðherra í fararbroddi grípa inn í með þeim hætti sem raun ber vitni þegar atvinnutækifærum flugvirkja hefur fækkað mjög í þeim hamförum sem orðið hafa og staðið hafa yfir frá því í vor í ferðaþjónustunni og í flugiðnaðinum öllum. Það er ekki hægt annað en að játa að sú hugsun læðist að manni að hér sé, hvort sem það er ómeðvitað eða meðvitað, verið að nýta sér afar erfiða stöðu flugvirkja til að styrkja samningsstöðu sína og leita annarra möguleika en að vinna fyrir ríkisstofnun eins og Landhelgisgæsluna. Ef sú er raunin er það ansi léleg framkoma gagnvart þessari stétt, að nýta þetta tækifæri sem nú er.

Frú forseti. Það er svo, og það er staðreynd sem ekki er hægt að vefengja, að ef sett eru lög á verkfallsrétt einnar stéttar er í raun og veru verið að grafa undan verkfallsrétti annarra stétta, allra stétta. Það er grafalvarlegur hlutur. Við þurfum ekki að rifja upp þær baráttur sem vinnandi stéttir hafa háð í gegnum árin, áratugina og aldirnar til að eiga í friði og varðveita þann gríðarlega mikilvæga rétt sinn sem verkfallsrétturinn er. Það á að kippa fótunum undan þeirri mikilvægu baráttu.

Hér hefur hæstv. dómsmálaráðherra talað um öryggismál er tengjast þyrlukosti Landhelgisgæslunnar, sem er sannarlega þörf umræða sem við verðum að eiga sem fyrst. Hún segist hlakka til þess að gengið verði til kaupa á nýrri þyrlu nú í janúar. Ég vil taka undir orð hv. þm. Smára McCarthys, sem talaði fyrr í umræðunni í dag um að þau fyrirhuguðu kaup, ef af þeim verður, sé vert ræða í þingsal vegna þeirra slysa sem átt hafa sér stað, því miður, og tengjast þeirri þyrlutegund sem um er að ræða.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu mikið lengri. Ég tek líka undir þau orð sem fallið hafa í umræðunni um hvers ábyrgð það sé að tryggja öryggi er varðar starfsemi Landhelgisgæslunnar. Sú ábyrgð er ekki í höndum neins annars en hæstv. dómsmálaráðherra, sem hefur vitað og fylgst grannt með þessari deilu sem við erum að fjalla um í dag og hefur haft öll tækifæri til þess að grípa inn í á faglegan hátt, til að koma í veg fyrir þá stöðu sem við erum í í dag, til að sýna virðingu gagnvart þeirri ótrúlega mikilvægu vinnu sem starfsfólk Landhelgisgæslunnar innir af hendi og er okkur öllum mikilvæg. Hvar sem við búum og í hvaða veðri sem geisar þá er starfsemi Landhelgisgæslunnar og þeirra sem þar vinna mikilvæg og við verðum að sýna því raunverulega virðingu. Við getum ekki fjallað hér um öryggissjónarmið sí og æ, statt og stöðugt, en láta svo hjá líða að hafa áhrif á kjaradeiluna sem hefur átt sér stað síðustu tíu mánuði. Ég þekki alveg þessi armslengdarrök sem hæstv. dómsmálaráðherra talaði um í ræðu sinni og andsvörum, en það verður samt sem áður að hafa í huga að það eru ýmsar leiðir til þess að liðka fyrir lausn mála af hálfu hæstv. dómsmálaráðherra. Það er ábyrgðarhluti að hafa ekki gert það fyrr, að hafa ekki gripið inn í eða liðkað fyrir samtali eða leitt saman fólk til að eiga samtöl til að stuðla að raunverulegri lausn annarri en þeirri að bera á borð fyrir Alþingi frumvarp til að grípa inn í verkfallsrétt þessarar stéttar.

Ég óska hv. allsherjar- og menntamálanefnd velfarnaðar í vinnu sinni og umfjöllun um frumvarpið. Ég vona að þar verði líka reifuð með skýrum og góðum hætti sjónarmið hinna vinnandi stétta og verkfallsréttarins, sem er okkur öllum mikilvægur.